131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[19:28]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á fernum lögum sem snúa að fiskveiðum innan og utan landhelgi okkar. Ég vil, eins og hv. þm. Kristján L. Möller, þakka 1. flutningsmanni fyrir að koma með þetta mál hér inn. Ég reikna með því að ástæðan fyrir því sé kannski störf sem hv. flutningsmaður hefur með höndum utan þings sem lögmaður, að hann hafi orðið var við það hvernig dómarar þurfa að beita þessu lágmarksrefsiákvæði. Ég tel að það sé ef til vill kveikjan að því að þetta mál er flutt inn í þingsali.

Einnig vil ég hæla 1. flutningsmanni, Örlygi Hnefli Jónssyni, fyrir að safna saman meðflutningsmönnum sem að mestu leyti koma úr sjávarútvegsnefnd. Sjö meðflutningsmenn sýnist mér að sitji í sjávarútvegsnefndinni. Eins eru meðflutningsmenn þessa lagafrumvarps úr öllum flokkum sem nú sitja á Alþingi. Það sýnir okkur kannski betur en margt annað hversu gott mál er hér á ferðinni.

Málið snýst í raun ekki um að minnka refsingar ef brot á umræddum lögum eru slík að viðurlög ættu að vera svipuð og fyrir brot á öðrum lögum, langt í frá. Það er heldur ekki verið að breyta á neinn hátt því hvað skuli teljast brot. Það er ekki verið að breyta á nokkurn hátt skilgreiningu brota. Það sem verið er að gera með flutningi þessa frumvarps er einfaldlega að auka valfrelsi dómara, gefa dómurum kost á því, ef aðstæður eru með þeim hætti, að ákvarða refsingu en vera ekki bundnir af lágmarksrefsingu upp á 400 þús. kr.

Lágmarkssektir samkvæmt gildandi lögum eru 400 þús. kr. og það er alveg burt séð frá því hvers eðlis brotið er sem verið er að dæma fyrir, hvort það er framið vísvitandi og af ásetningi og miklum brotavilja eða hvort það er framið af gáleysi eða jafnvel þekkingarleysi á lögum. Jafnvel smávægilegar yfirsjónir sem allir eru sammála um að enginn ásetningur væri í þýða að ef dómari kemst að því að sá sem fyrir rétti er hafi brotið lögin á hann engan annan kost en að sakfella með aldrei minni sekt en upp á 400 þús. kr.

Við flutningsmenn þessa frumvarps viljum að dómarar hafi aukið frelsi til að meta hve há sektin á að vera og við viljum ekki sjá að brot á lögum um umgengni við nytjastofna sjávar eða lög sem snúa að þeirri atvinnugrein verði harðari hvað varðar lágmarksrefsingar en einhver brot sem við getum sagt að séu sambærileg brot á öðrum lögum.

Við höfum öll heyrt, herra forseti, dæmi um smávægileg brot á lögum um stjórn fiskveiða, jafnvel brot sem löghlýðnir menn geta varla komist hjá því að fremja. Eftir að fiskur er kominn í veiðarfæri og kominn um borð í bát er erfitt fyrir þann sem þar stendur að meta hvað við skal gera ef aðstæður eru þannig. Hann má ekki losa sig við fiskinn í sjóinn, það er brottkast og það er brot á lögum sem þýðir 400 þús. kr. lágmarkssekt. Hann má ekki hirða fiskinn ef hann á ekki fyrir honum kvóta eða fyrirséð er að hann geti ekki náð í kvóta fyrir þeim fiski sem hann ber að landi. Ef hann kemur með hann að landi og verður uppvís að því þarf að sekta hann um 400 þús. kr. samkvæmt gildandi lögum. Hans eini kostur í sjálfu sér til að brjóta ekki lög er að éta fiskinn á staðnum. Það getur svo sem verið ágætislausn ef um einn fisk er að ræða. Ef þeir eru fleiri og þótt þeir séu jafnvel ekki mjög margir — ekki treysti ég mér til að éta 10 kíló af steinbít t.d. á einu bretti þannig að þá yrði ég að koma með hann að landi og gæti tekið séns á því að vera dæmdur í 400 þús. kr. sekt ef enginn er kvótinn, og steinbítskvótinn jafnvel búinn.

Ég held, herra forseti, að þegar óréttur blasir við með jafnskýrum hætti og hér um ræðir — ég held að allir sem velta fyrir sér og skoða sum af þeim málum sem menn hafa verið dæmdir í 400 þús. kr. sekt. geri sér grein fyrir að þar hafi í raun verið framinn óréttur — vil ég stuðla að því að réttarbót verði á. Þess vegna kemur þetta frumvarp hér fram. Vonandi fær það, þótt 1. flutningsmaður sé úr stjórnarandstöðuflokki, skjóta meðferð í sjávarútvegsnefnd. Ég treysti því a.m.k. miðað við þann fjölda flutningsmanna úr þeirri góðu nefnd sem er á þessu frumvarpi til laga að það fái hraða málsmeðferð þar og komi hér inn til 2. umr. og verði að lögum á þessu þingi.

Ef það gerist ekki, ef okkur tekst ekki að koma því fljótt og vel í gegnum sjávarútvegsnefndina og aftur hingað inn er greinilega enn ekki nóg að leggja hér fram frumvarp til laga sem allir eru sammála um að er mikil réttarbót ef flokkslitur viðkomandi er ekki réttur. Það ætla ég að vona að verði ekki í þessu máli, herra forseti, og mun örugglega leggja mitt af mörkum og styðja málið með ráðum og dáð í sjávarútvegnefnd.