131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Þjóðgarður norðan Vatnajökuls.

118. mál
[13:50]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Nefnd um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls skilaði tillögum til ráðuneytisins sl. vor. Í henni voru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson sem og Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, sem var formaður nefndarinnar.

Tillögur nefndarinnar eru mjög ítarlegar og þær draga fram sérstöðu svæðisins norðan Vatnajökuls sem fullyrða má að í náttúrufarslegu tilliti sé einstakt í heiminum. Í skýrslu nefndarinnar eru færð mjög sannfærandi rök fyrir því mati. Gerð er tillaga um svæði norðan Vatnajökuls sem nefndin telur rétt að gert verði að þjóðgarði.

Nefndin leggur þó áherslu á að sérstaða svæðisins norðan Vatnajökuls mótist ekki síst af samspili jökuls og eldvirkni svæðisins og því sé mikilvægt að líta á svæðið norðan Vatnajökuls og jökulinn sjálfan sem eina heild og að þjóðgarður norðan Vatnajökuls yrði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og svæðið allt, jökullinn og nærliggjandi áhrifasvæði sem rétt þykir að verði hluti þjóðgarðsins, undir einni samræmdri yfirstjórn.

Auk svæðisins norðan Vatnajökuls sem tillögur nefndarinnar snúa fyrst og fremst að telur nefndin rétt að við stofnun þjóðgarðsins verði einnig hugað að öðrum jaðarsvæðum við austur- og suðurhluta jökulsins. Slíkur þjóðgarður yrði að mati nefndarinnar einstakur í heiminum hvað varðar stærð og fjölbreytileika og mundi að mati kunnugra verða aufúsugestur á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna um markverða staði í heiminum.

Eins og fram kemur í tillögum nefndarinnar er stofnun þjóðgarðs sem tekur til áhrifasvæðis norðan Vatnajökuls mjög umfangsmikið verkefni sem krefst margháttaðs undirbúnings, m.a. samningaviðræðna við landeigendur þar sem ljóst er að hluti þess lands sem lagt er til að verði hluti þjóðgarðs er í einkaeign. Það er ekki gert ráð fyrir því að allt það land sem lagt er til að verði innan þjóðgarðsmarkanna þurfi að vera í eigu þjóðarinnar heldur geti það verið áfram í einkaeign með samningum við yfirstjórn þjóðgarðsins.

Einnig er gert ráð fyrir því að hefðbundnar landnytjar geti haldist mikið til óbreyttar, þ.e. veiðinytjar og beitarafnot á grundvelli sjálfbærrar nýtingar.

Nauðsynlegt getur verið að stofnun þjóðgarðs af þessari stærð fari fram í nokkrum áföngum og vinna mætti að því verki jafnt og þétt á næstu 5–8 árum þannig að þjóðgarðurinn yrði fullmótaður á tímabilinu 2010–2012. Tillögur nefndarinnar eru nú til meðferðar hjá ríkisstjórn og ég vænti þess að mjög fljótlega verði ákveðið hvernig staðið verði að frekari undirbúningi Vatnajökulsþjóðgarðsins og þeirra áhrifasvæða jökulsins sem æskilegt má telja að verði í framtíðinni hluti hans. Ég legg þó áherslu á að mikil vinna er fyrir höndum að skoða málið nánar í samráði við landeigendur og heimamenn.

Ég vil að lokum geta þess að í síðustu viku gekk ráðuneytið frá reglugerð um stækkun Skaftafellsþjóðgarðs sem líta ber á sem fyrsta skref í stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Með þeirri stækkun er Skaftafellsþjóðgarður nú stærsti þjóðgarður í Evrópu. Hér er auðvitað verið að hreyfa mjög mikilvægu máli sem er sameiginlegt áhugamál okkar sem sitjum á þingi. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs kemur í kjölfarið á samþykktri þingsályktunartillögu hér á Alþingi.

Til þess að bregðast við því sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi áðan, hvort um tvo þjóðgarða væri að ræða, vil ég segja að hugsunin er sú að á endanum verði um einn þjóðgarð að ræða sem nái þá alveg sunnan að, yfir jökulinn og til strandar að norðan. Hins vegar er nú þegar búið að fara í stækkun á Skaftafellsþjóðgarðinum eins og ég nefndi áðan. Fjárlagavinnan stendur yfir. Þingmaðurinn saknaði þess að ekki væru meiri fjármunir ætlaðir til þessara mála en raun ber vitni en svarið við því er að ekki er búið að taka ákvörðun í ríkisstjórn um framhald málsins. Eins og ég nefndi áðan verður það þó mjög fljótlega.