131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Sláturhús í Búðardal.

141. mál
[14:03]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna málefna sláturhússins í Búðardal en í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum fyrir árið 2002–2005 segir svo um Dalabyggð, með leyfi forseta:

„Í Dalabyggð [...] hefur fólki fækkað mikið og samdráttur verið í atvinnulífi, einkum í landbúnaði. Þetta svæði þyrfti verulegan stuðning af opinberri hálfu einungis til þess að treysta þá búsetu sem þar er nú fyrir hendi.“

Dalir og nærliggjandi héruð eru mikil sauðfjárræktarsvæði enda landkostir þar víða góðir til þess búskapar. Fá héruð eru eins háð landbúnaði og íbúar í Dalabyggð. Hvert starf, hvert fyrirtæki sem veitt getur vinnu utan bús er því afar mikilvægt og margfeldisáhrif þess mikil. Þess vegna slær það þessa byggð illilega þegar stórum vinnustað eins og sláturhúsinu í Búðardal er skyndilega lokað og fjöldi fólks missir af vinnutekjum sem það á ekki kost á að sækja annað. Í sláturhúsinu í Búðardal hafa unnið 50–60 manns haustmánuðina sem slátrun stendur yfir og um fimm störf að vetrinum eða reiknað í 15–20 ársstörf. Vinnulaun hafa verið u.þ.b. 25–30 millj. kr. auk margþættrar þjónustu sem nýtur góðs af þeim umsvifum sem annars er ekki fyrir hendi. Það gefur því augaleið að lokun 20 manna vinnustaðar í 650 manna samfélagi hefur gríðarleg áhrif.

Byggðastofnun, verkfæri stjórnvalda til byggðaaðgerða, á 95% í sláturhúsinu. Maður skyldi því ætla að hæg væru heimatökin að beita sér fyrir þeim nauðsynlegu endurbótum sem þarf að gera á húsinu til að það geti starfað með eðlilegum hætti og fylgt þar með líka ákvæðum byggðaáætlunar.

Endanleg ákvörðun stjórnvalda um lokun hússins kom í september að áliðinni slátrun og þótti heimamönnum þar á sér brotið. Önnur sláturhús hafa starfað undir miklu álagi með löngum vinnudegi og vel að merkja mönnuð að stórum hluta með tímabundnu erlendu vinnuafli sem fer með vinnulaunin sín beint úr landi. Í Búðardal voru það Íslendingar, það voru heimamenn í Dölum sem unnu verkin. Nú er ekkert sláturhús frá Selfossi vestur um að Hvammstanga nema lítið hús í Króksfjarðarnesi sem býr líka við mjög óvissa framtíð. Flutningur á sláturfé er gríðarlegur, m.a. yfir varnarlínur, og óvíst hvaða áhrif svo langur flutningur hefur á gæði kjötsins.

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra í ljósi þess sem ég hef sagt hér:

1. Hvernig samræmist það stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og eflingu atvinnulífs í Dalabyggð og nærsveitum að láta loka sláturhúsinu í Búðardal með þeim hætti sem gert var í haust?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir aðgerðum sem stuðla munu að áframhaldandi rekstri sláturhúss og kjötvinnslu í Búðardal?