131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Mannréttindaskrifstofa Íslands.

200. mál
[14:58]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að öll stjórnsýsla í þessu máli hafi verið til fyrirmyndar. Það sem ráðuneytið var að gera 11. júní var að svara bréfi frá Mannréttindaskrifstofunni sem er dagsett 7. júní, bregðast við því bréfi og lýsa skoðun sinni. Því má alveg eins spyrja: Hvers vegna hafði Mannréttindaskrifstofan ekki samband við ráðuneytið á annan hátt en bréflega?

Venjulega er það nú svo að þegar menn fá bréf þá svara þeir bréfunum og það er það sem var gert. Ég er nú ekki vanur því að þess sé krafist af opinberum aðilum að þeir efni til funda þótt þeir fái bréf. Þeir svara bréfum og það gerðum við og lýstum okkar skoðun og brugðumst við eins og vera ber þegar slík erindi berast í ráðuneytið. Þessi gagnrýni á því ekki við nein rök að styðjast frekar en gagnrýnin í fyrri ræðu hv. þingmanns.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það af hálfu ráðuneytisins hvernig staðið verði að ráðstöfun á þessu fé. Það á nú fyrst eftir að samþykkja fjárlögin og sjá hvernig þessu verður hagað í endanlegri gerð fjárlaganna. Þegar það hefur verið gert eru ýmsar leiðir til þess að ráðstafa lið eins og þessum. Eðlilegast er að mínu mati að auglýsa og þá geta þeir sem eru að sinna verkefnum á sviði mannréttindamála sótt um styrki og síðan sé það ráðuneytisins að ákveða hverjir fái styrkinn á grundvelli umsókna. Það er ein leið.

Það eru því margar leiðir til að bregðast við þessu. Ég tel skynsamlegustu leiðina í þessu máli að menn taki mið af því hvað í fjárlögum fyrir árið 2005 stendur eftir að Alþingi hefur afgreitt þau, ráðuneytið auglýsi síðan eftir styrkjum og svo sé tekið á málum miðað við umsóknir.