131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:51]

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við fordæmum harðlega árás á friðargæsluliða okkar í Afganistan. Það þarf að leita allra leiða til að tryggja öryggi þeirra sem best og að svona atburðir endurtaki sig ekki. Það hefur alltaf legið fyrir að störf friðargæsluliða eru fráleitt hættulaus, enda sinna þeir störfum á ótryggum svæðum þótt hernaðarátökum sé lokið. Af þeim sökum þurfa þeir að nota viðeigandi búnað til að geta varist árásum, svo sem skotheld vesti og handvopn. Íslenskir friðargæsluliðar eru hins vegar ekki þjálfaðir sem hermenn. Friðargæslan er ekki hersveit. Að reyna að halda einhverju öðru fram er hreinn útúrsnúningur og furðulegur málflutningur. (Gripið fram í: Davíð segir það.)

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hljóta að átta sig á því að flugsamgöngur í Afganistan eru geysilega mikilvægar, enda er landið mjög erfitt yfirferðar. Uppbygging og endurskipulagning flugvallarins í Kabúl er því nauðsynleg fyrir endurreisn landsins. Íslendingar hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi fyrir að taka að sér þetta erfiða verkefni. Verkefni íslensku friðargæslunnar er hluti af ábyrgð okkar sem NATO-ríkis. Við verðum að leggja okkar af mörkum.

Friðargæsluliðar okkar hafa sýnt mikið hugrekki og fórnfýsi við að sinna nauðsynlegum störfum í þágu friðar og uppbyggingar á stríðshrjáðum svæðum. Ég vil þakka þeim sérstaklega vel unnin störf við erfiðar aðstæður. Markmið starfsins er auðvitað að aðstoða við að koma þjóðfélaginu á réttan kjöl á ný. Hins vegar er það því miður svo að ekki vilja allir sjá uppbyggingu og framfarir í Afganistan.

Þar er alþjóðasamfélaginu vandi á höndum.