131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þm. nefndi þá gat ég þess að mér fyndist slæmt að við gætum ekki lýst skoðunum okkar á því við atkvæðagreiðslu um málið hver hámarksfjárhæðin ætti að vera. Ég held að það sé til leið til þess. Við setjum þetta í ákvæði til bráðabirgða um að hámarksfjárhæðin verði 16 millj. kr. þegar þessi lög taka gildi og hæstv. ráðherra haldi áfram reglugerðarheimild sinni. Ég er tilbúin að sættast á það.

Varðandi það að þetta skipti litlu máli þá verð ég að segja að það er sannfæring mín að þetta breyti litlu fyrir utan það að hámarksfjárhæðin verður hærri. Fólk getur þegar farið í bankana og keypt sér sæmilega þriggja herbergja íbúð fyrir þá lánamöguleika sem þar eru. Ég veit að hv. þm. hlýtur að vera mér sammála um að það er nauðsynlegt fyrir Íbúðalánasjóð að hann fylgi þeirri þróun sem er á markaði ef hann á ekki að lognast út af og bankarnir að yfirtaka hann. Hvorugt okkar vill sjá það. Ég er sannfærð um það.

Ef hámarksfjárhæðin hefði fylgt launaþróun í gegnum árin þá ætti hún sennilega að vera á bilinu 16–18 millj. kr. Ætli meðal þriggja herbergja íbúð kosti ekki 13–14 millj. kr., eitthvað á því bili. Eins og áformin eru nú er því varla hægt að fá stærri íbúð fyrir 13 millj. kr. og 90% lán.

Ég vil spyrja hv. þm., af því að hann nefnir vextina. Telur hann ekki kominn tíma til að lækka vexti á leiguíbúðum, sem eru allt að 4,9%? Þeir voru 1% og menn stóðu vörð um það á sínum tíma að vextirnir á leiguíbúðunum yrðu ekki hærri.

Ég er hissa á því að Íbúðalánasjóður geti ekki farið lægra með vexti sína en 4,3% þegar um er að ræða ríkisábyrgð á þessum lánum, sem menn töldu að mundu skila því að hægt væri að hafa vextina 1% lægri en er hjá bönkunum.