131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[14:01]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram er staðan viðkvæm og okkur ber að taka hana alvarlega.

Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, segir hér að brýnt sé að tryggja stöðugleikann. Við skulum aðeins athuga hvað bæði Samfylkingin og Vinstri grænir vilja í því sambandi. Hér hafa þeir haft uppi þann málflutning, sérstaklega Samfylkingin, að lækka beri skatta — það sagði Samfylkingin líka í síðustu kosningabaráttu — það á að hækka skattleysismörk, það á að lækka virðisaukaskatt, jafnvel afnema hann, það á að afnema stimpilgjöld og þar að auki leggja þingmenn stjórnarandstöðunnar fram nánast daglega tillögur um mjög aukin útgjöld upp á tugi milljarða. Þetta er nú allur stöðugleikinn sem stjórnarandstaðan hefur sýnt vilja til að halda uppi. (Gripið fram í: Taka það allt til baka.)

Varðandi aðhald í fjárlögum er alveg ljóst að stjórnarflokkarnir eru að setja aukið fjármagn til velferðarmála, svo sem til málefna fatlaðra, heilbrigðismála og menntamála. Á móti er dregið mjög verulega úr framkvæmdum, úr fjárfestingum, þannig að hér er verið að sýna aðhald í fjárlagagerðinni. Það eru samt nokkrir þættir sem valda þensluhættu eins og hefur líka komið hér fram, m.a. stóriðjuframkvæmdirnar. Það er ekkert nýtt, það var alltaf vitað, og Samfylkingin studdi þau áform — nánast hver einasti þingmaður Samfylkingarinnar studdi þau áform.

Af hverju erum við að fara út í þá framkvæmd? Meðal annars til að geta staðið undir velferðarkerfinu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson ræðir afar oft um að þurfi að gera. Ég er honum sammála um það (ÖJ: Hvað á að gera ...?) þannig að sú framkvæmd er einmitt til þess fallin (Gripið fram í.) að styrkja efnahagslífið þannig að við getum staðið undir félagsmálum, menntamálum og heilbrigðismálum. (ÖJ: ... Þetta er alrangt.)

Ég vil minna hv. þingmann á að mjög stór launþegasamtök studdu þá framkvæmd (Gripið fram í.) þannig að það er löngu vitað af mögulegri þensluhættu og nú er um að gera að við tökum höndum saman (Gripið fram í.) og reynum að verjast henni.

Varðandi það að hér séu gáleysislegar yfirlýsingar um skattalækkanir frá stjórnvöldum (Gripið fram í.) vísa ég því algjörlega á bug. Það hefur löngu verið ljóst að stjórnarflokkarnir ætla sér að lækka hér skatta (Forseti hringir.) og það er ekkert nýtt í því.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að halda ró sinni og vera ekki sífellt að grípa fram í fyrir ræðumönnum á þeim stutta tíma sem þeir hafa í ræðustólnum í þessari umræðu.)