131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[14:06]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er mjög merkilegt að hlusta á stjórnarandstöðuna í þessu máli.

Ég hlustaði hér í morgun á umræðu um húsnæðismál. Þá var það frumvarp gagnrýnt fyrir það að húsnæðislánin væru ekki hækkuð nógu mikið, það ætti að hækka þau miklu meira. Það er sem sagt hvatt til þenslu fyrir hádegi en reynt að draga úr henni eftir hádegi (ÖS: Það er Árni Magnússon sem vill hækka meira.) í þeirri trú að menn geti þá væntanlega hvatt til þenslu fyrir hádegi daginn eftir og dregið úr henni eftir hádegi sama dag. Þetta er náttúrlega málflutningur sem ekki er hægt að taka mark á.

Ég sagði aldrei hér að ég hefði engar áhyggjur af þessari stöðu. Ég sagði hins vegar að ástæða væri til að fagna því að Íslendingar fengju sambærileg húsnæðislán og gengur og gerist í kringum okkur. Ég vona að það verði ekki til þess að auka neyslu eða eyðslu okkar fólks. En var ekki kominn tími til þess að Íslendingar gætu farið að fjármagna húsnæðismál sín með langtímalánum en ekki skammtímalánum með yfirdráttarvöxtum? Skiptir það ekki launþega þessa lands miklu máli? Og skiptir það ekki launþega þessa lands miklu máli að því er spáð 2005 að kaupmáttur muni vaxa um rúm 3% og því er spáð 2006 að kaupmáttur ráðstöfunartekna muni vaxa um rúm 4%? Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aldrei vaxið jafnmikið og í tíð þeirra flokka sem nú eru í ríkisstjórn, aldrei, hvorki fyrr né síðar. Er það ekki það sem skiptir meginmáli í þessu sambandi?

Við höfum þrátt fyrir allt, þrátt fyrir allar svartsýnisspár, viðhaldið stöðugleikanum og við ætlum að gera það áfram.