131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Verðsamráð olíufélaganna.

[15:10]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst vera til skammar hvernig forsætisráðherra lýðveldisins hleypur í vörn fyrir olíufélögin. Það er enginn að tala um að kalla fyrir sig einn eða annan. Það sem við erum að tala um er að reyna að ná sáttum í þessu máli. Það liggur fyrir að þjóðfélagið er allt í uppnámi. Þjóðfélagið er sárt. Það eru flakandi undir á samfélaginu vegna þessa máls, vegna þess að olíufélögin hafa með rangindum tekið miklar upphæðir af samfélaginu. Það er fullkomlega eðlilegt að menn reyni að leita sátta í því máli, sérstaklega þegar olíufélögin hafa sagt að þau iðrist, og þau biðjast afsökunar.

Hver á að hafa forgöngu um það hvort þau séu e.t.v. til í að bæta samfélaginu þann skaða með einhverjum hætti í frjálsum viðræðum? Það er að sjálfsögðu forsætisráðherra. En auðvitað gengur það ekki ef hæstv. forsætisráðherra lítur á sig sem talsmann olíufélaganna gagnvart þjóðinni eins og hann hefur gert hér.