131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:39]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Staðan í kennaradeilunni er grafalvarleg. Málið er nú þannig vaxið að skólabörnin hafa verið send heim og óvissan tekin við um framhaldið. Áhyggjur mínar í dag snúa fyrst og fremst að börnunum og stöðu fjölskyldnanna í landinu. Staða þeirra er erfið.

Það er erfitt að útskýra fyrir börnunum hvers vegna kennsla falli niður á ný eftir að þau hafa verið einungis rúma viku í skólanum að loknu sex vikna verkfalli. Börnin okkar eiga rétt á menntun samkvæmt lögum og margir benda á að með því að fella niður kennslu svo vikum og mánuðum skiptir, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á, sé verið að hafa þennan rétt af æsku landsins. Við verðum, virðulegi forseti, að hafa hugfast að við höfum á undanförnum árum og áratugum viðurkennt ákveðin grundvallaratriði í samfélagi okkar og búið okkur til leikreglur sem styðjast m.a. við alþjóðasáttmála. Til þeirra reglna heyrir m.a. verkfallsréttur kennara.

Það er ljóst samkvæmt umboðsmanni barna að þegar ósamrýmanleg réttindi mætast, eins og í þessu tilfelli réttur barna til menntunar og réttur kennara til að fara í verkfall, verður annar rétturinn að víkja. Réttur kennara til verkfalls er sértækur réttur meðan réttindi barnanna okkar til menntunar er almennur. Þegar svo ber undir getur þessi ömurlega staða komið upp, þ.e. að börnin eru send heim, í verkfall eins og umboðsmaður barna bendir á. Það undirstrikar að réttur kennara til að fara í verkfall er í raun ríkari en réttur barnanna til að ganga í skóla.

Það breytir hins vegar engu um alvarleika málsins fyrir börnin, fyrir heimili landsins, fyrir kennarana og fyrir sveitarfélögin.

Menntamálaráðuneytið mun að sjálfsögðu reyna að tryggja í samvinnu við fræðsluyfirvöld sveitarfélaganna og kennara að sú kennsla sem fellur niður vegna verkfalls verði bætt upp eins og kostur er. En með hverjum verkfallsdeginum sem líður mun hins vegar reynast erfiðara að bæta tjónið að fullu. Þetta er óásættanlegt ástand í nútímaþjóðfélagi og ég hef lýst því yfir að þegar þessari deilu lýkur verðum við í sameiningu að leita allra leiða til að reyna að koma í veg fyrir að ástand í líkingu við það sem nú ríkir geti endurtekið sig. Víða ríkir örvænting og margir krefjast þess að ríkið skerist í leikinn með einhverjum hætti, eins og lagasetningu. Lagasetning þar sem gripið er með beinum hætti inn í kjaradeilu hlýtur hins vegar ávallt að mínu mati að vera neyðarúrræði. Við höfum reynslu af slíkri lagasetningu og hún er slæm. Hún leysir lítinn vanda og skýtur honum einungis á frest, líkt og báðir deiluaðilar hafa þegar bent á. Lagasetning er því að mínu mati þrautalending.

Ýmsir hafa einnig sagt að ríkið eigi bara að koma með meiri pening inn í deiluna. Slíkt tal er að mínu viti óábyrgt og frekar í ætt við tækifærismennsku. Reyndar er það svo að ríkið kemur að úrlausn þessara mála því það er ekki spurt þegar það er skuldbundið upp á marga milljarða króna vegna lífeyrisskuldbindinga einna saman.

Við verðum líka að horfast í augu við það að þótt sveitarfélögin ættu allan ríkissjóð gætu þau ekki komið til móts við ýtrustu kröfur kennara. Það væri skammgóður vermir á lausn deilunnar fyrir samningsaðila því stöðugleiki í efnahagsmálum er allra mál og væri til lítils unnið ef umsamdar kauphækkanir yrðu étnar strax upp af verðbólgu.

Samkvæmt ummælum ýmissa manna úr verkalýðsforustunni og frá Samtökum atvinnulífsins er fylgst grannt með gangi mála í kennaradeilunni og rétt að fólk geri sér grein fyrir að þeir munu ekki sitja aðgerðalausir ef samningar tefla stöðugleikanum og hinum svonefndu rauðu strikum í tvísýnu.

Virðulegi forseti. Verkefni dagsins er því ærið, að bæta kjör kennara þannig að ásættanlegt sé fyrir þá að sinna sínum mikilvægu störfum og án þess að slíkir samningar feli í sér ógnun við kærkominn stöðugleika. Samninganefndirnar koma á morgun saman í húsakynnum ríkissáttasemjara. Meðan menn eru að hittast er enn von. Jafnframt vonast ég til að tíminn verði nýttur til hins ýtrasta og að menn sitji við samningaborðið þannig að lausn fáist hið fyrsta.

Er óskandi að það gangi eftir ásamt því að samningarnir verði til þess fallnir að áfram verði svigrúm til þróunar og nýsköpunar í skólastarfi.