131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[14:08]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það sem ég hef margoft sagt og það hefur líka komið fram í þessari umræðu að það blandast engum hugur um það að laun kennara eru síst of há. En ég bjóst satt að segja við, virðulegi forseti, að heyra hér einhverjar lausnir, einhverjar raunhæfar lausnir (Gripið fram í.) en ekki tækifærismennsku. Ég hélt að stjórnarandstaðan hefði efnt að eigin frumkvæði til utandagskrárumræðu til þess að koma með raunhæfar lausnir á kennaraverkfallinu. (Gripið fram í.) Hver er síðan lausnin?

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja þingheim að sýna ráðherra þá virðingu að hafa hljóð meðan hún talar, á þeim stutta tíma sem hún hefur hér til umráða.) (ÖJ: Það þarf að sýna þingmönnum virðingu.)

Ég þakka fyrir, virðulegi forseti. En hver er síðan lausnin hjá stjórnarandstöðunni? Jú, það er að dæla meiri pening inn í deiluna (Gripið fram í.) og ég verð satt best að segja, frú forseti, að frábiðja mér svona málflutning, svona tækifærismennsku, svona hringekjumálflutning, rússíbanamálflutning stjórnarandstöðunnar.

Hvað eru þeir að segja í eina röndina? Þeir eru að segja: Meiri pening inn í deiluna til þess að ógna m.a. stöðugleikanum. Síðan í hina röndina (Gripið fram í.) er verið að deila á ríkisstjórnina fyrir aðhaldsleysi í peningamálum. Ég bið um samræmi í málflutningi stjórnarandstöðunnar en ekki að koma hingað og vera eins og einhverjir fagurgalar og ala á þeim falsvonum (Gripið fram í: En málflutningur stjórnarinnar?) hjá kennurum, foreldrum og fjölskyldum í þessu landi að það sé hægt að leysa deiluna með því einu að dæla bara meiri pening inn í hana. Þessi málflutningur er ekki boðlegur. (Gripið fram í: Hvað með ráðherrana?)