131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Lánasjóður sveitarfélaga.

269. mál
[14:15]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að kynna þetta mál um endurskoðun laga um Lánasjóð sveitarfélaga og í sjálfu sér er löngu tímabært að endurskoða þau lög. Eins og fram kom í máli ráðherrans eru þau að verða 40 ára gömul og allt umhverfið auðvitað gjörbreytt frá því að þau voru sett.

Það má út af fyrir sig velta fyrir sér hvort þörf er á sérstökum lánasjóði fyrir sveitarfélögin en það hefur verið afstaða forustu Sambands íslenskra sveitarfélaga að þrátt fyrir breytingar á fjármálamarkaði sé enn þá þörf á slíkum sjóði og verði á komandi árum. Frumvarpið sem hér er lagt fram er unnið í ágætu samráði við sveitarfélögin sem eðli málsins samkvæmt hljóta að hafa talsvert um málið að segja, enda frumvarpið í eðli sínu í þá veru að flytja ákvörðunarvald í þessum málum í ríkari mæli til sveitarfélaganna og frá ríkinu eins og eðlilegt er og í samræmi við sjálfsforræði sveitarfélaganna. Þar með hlýtur einnig ábyrgðin á fjársýslunni og stöðu sjóðsins frá einum tíma til annars fyrst og fremst að vera þeirra sem um sjóðinn fjalla og þá sveitarfélaganna að þessum lögum gengnum en ekki ríkisins eins og nú er.

Ég held þess vegna að í öllum aðalatriðum horfi málið til framfara en við munum auðvitað á næstu vikum og mánuðum fara yfir það í félagsmálanefnd og leita eftir þeim sjónarmiðum sem um það kunna að vera og áskiljum okkur rétt til að gera breytingar ef þurfa þykir, en í aðalatriðum hljóti að vera nokkuð víðtæk samstaða um málið.