131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Lánasjóður sveitarfélaga.

269. mál
[14:17]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram eru lögin um Lánasjóð sveitarfélaga nokkuð gömul, þau eru að stofni til frá 1966. Verið er að breyta sjóðnum með þessu frumvarpi þannig að hann verði meira í takt við það sem gildir á fjármálamarkaðnum í dag og einnig til að koma til móts við þróunina sem orðið hefur hjá sveitarfélögunum. Hér er því verið að laga rekstur þessa sjóðs að almennum starfsskilyrðum á markaði.

Það sem ég vildi sérstaklega draga fram í umræðunni er einmitt það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan, þ.e. hvaða svigrúm sú breyting skapar sem fjallað er um í frumvarpinu að með niðurfellingu þeirra framlaga sem jöfnunarsjóði hefur verið skylt að leggja til lánasjóðsins losna fjármunir hjá jöfnunarsjóðnum og þeir geta þá nýst í önnur framlög til sveitarfélaga. Má áætla að aukið ráðstöfunarfé sjóðsins af þessum sökum verði 40 millj. kr. árið 2005, eða á næsta ári, 105 millj. kr. árið 2006 og eftir það um 240 millj. kr. á ári.

Ég tel að hér sé um mjög jákvætt skref að ræða. Mikil umræða hefur verið um fjárhagsstöðu sveitarfélaga upp á síðkastið eins og bæði heyrðist í nýafstaðinni utandagskrárumræðu en ekki síður í almennum umræðum á vettvangi sveitarfélaganna og því vildi ég gjarnan draga þetta sérstaklega fram.

Í síðustu viku var hér umræða um breytingar á húsnæðislánum, breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs, 90% lánin. Í þeirri umræðu kom einnig fram að framlög sveitarfélaga í varasjóð vegna viðbótarlána munu falla niður af því að viðbótarlánin sjálf falla niður, og þar munu einnig losna rúmlega 300 millj. Að vísu stendur til að ræða við sveitarfélögin um aðkomu þeirra að húsnæðismarkaðnum en það er a.m.k. alveg ljóst að það verður talsverður léttir hjá sveitarfélögunum vegna þess að þau munu þá ekki leggja fé í varasjóð viðbótarlána.

Einnig er rétt að það komi fram að líklega losnar fé hjá jöfnunarsjóðnum þegar stofnframlögin sem veitt hafa verið úr honum til einsetningar grunnskólans, eins og gert hefur verið samkvæmt samkomulagi í mörg ár, fjara út og það er fé sem líklega verður til umræðu varðandi tekjustofna og fjárframlög frá jöfnunarsjóði til sveitarfélaga.

Ég vildi því draga það sérstaklega fram, virðulegur forseti, að hér er að skapast svigrúm, verði frumvarpið að lögum, sem mun verða nýtt til að bæta stöðu jöfnunarsjóðsins og þar með bæta framlög til sveitarfélaga sem er að myndast nokkuð víðtæk samstaða um að skoða þurfi mjög náið á næstunni.