131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[15:01]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og aðrir þeir sem hér hafa talað fagna ég þessu frumvarpi sem ég tel í meginatriðum gott. Mér finnst ánægjulegt að sjá að ríkisvaldið hyggur á sérstakar aðgerðir til að varna óhöppum í umferðinni. Ég minnist þess að fyrir skömmu voru umræður í fjölmiðlum um ávinning íbúa Reykjavíkur vegna framkvæmda sem borgin hefur haft uppi á undanförnum árum til að liðka fyrir umferð og koma í veg fyrir slys, og ávinningurinn þar af var talinn í milljörðum árlega. Það er ljóst að það er til nokkurs að vinna. Þegar við tölum um ávinninginn, eins og var verið að ræða um hér í Reykjavíkurborg, er þó ekki verið að ræða um þjáningar manna og jafnvel skaða á heilsu sem varir alla ævi.

Erindi mitt upp í ræðustólinn er þó fyrst og fremst það að ég tók eftir að ráðherra minntist á bann við lausagöngu búfjár við þjóðveg 1. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki hafi komið til greina að hafa annað viðmið en eingöngu þjóðveg 1, t.d. fjölda bíla sem fer um tiltekna vegi daglega — nú vitum við að það er umferðartalning á öllum helstu leiðum — því að ég hygg að okkur sé öllum kunnugt um að slys af völdum búfjár verða ekki bara við þjóðveg 1. Þau eru á vissum vegum mjög tíð, vissum vegum öðrum en þjóðvegi 1 og ekkert síður þar en við þjóðveg 1 þó að þau verði því miður mörg einmitt við þjóðveg 1.

Mig langar að heyra álit ráðherra á því hvort ekki sé hægt að koma við einhverjum reglum svo að hægt sé að taka inn fleiri svæði en eingöngu þjóðveg 1.