131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Atvinnuleysi.

78. mál
[14:20]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Vinnumarkaðsúrræði til handa atvinnulausum eru ætluð til þess að auka atvinnutækifæri þeirra á vinnumarkaðnum, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þekkir.

Eins og fram kom í máli mínu áðan, hæstv. forseti, hef ég engar og trúi raunar ekki á töfralausnir til að leysa þennan vanda. Við höfum hins vegar, eins og ég rakti áðan, gripið til margvíslegra aðgerða til þess að bregðast við vanda þeirra sem eru atvinnulausir. Við höfum einkum beint sjónum okkar á þessu ári að þeim sem búa við langtímaatvinnuleysi, þ.e. þeim sem hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur, ungu fólki og raunar eldra fólki á vinnumarkaði sömuleiðis. Þekkt eru þau úrræði sem beitt hefur verið og verður beitt áfram, sérstaklega gagnvart konum á atvinnuleysisskrá.

Hv. þm. gerði hér að umtalsefni skriflega fyrirspurn um langtímaatvinnuleysi. Því er til að svara að það svar hefur krafist allnokkurrar yfirlegu, er nú tilbúið til undirritunar í félagsmálaráðuneytinu og verður sent þinginu í þessari viku.

Það sem ég tel mikilvægast í þessum efnum er að við gefumst ekki upp, leggjum ekki upp laupana, grípum ekki til þess ráðs að segja að svona sé þetta hjá nágrannaþjóðum okkar og lítið sé við þessu að gera. Við eigum ekki að líða atvinnuleysi á Íslandi. Það hefur verið grundvöllur þeirra efnahagslegu framfara sem átt hafa sér stað í landinu, þeirra lífsgæða sem íslenska þjóðin býr við, að hér hefur verið næga vinnu að hafa og ég vonast til þess að þannig verði það áfram.

Ég vil rétt að lokum, hæstv. forseti, nefna að nú er að störfum á mínum vegum nefnd sem fer yfir lögin um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Að því starfi koma aðilar vinnumarkaðarins og fleiri. Tilgangurinn er að byggja hér upp skilvirkara og betra stuðningskerfi við atvinnulausa og ég vænti mikils af starfi þeirrar nefndar.