131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sameining Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

96. mál
[14:34]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Sú sem hér stendur átti fyrir skemmstu orðastað við hæstv. menntamálaráðherra úr þessum stóli um samkomulag um sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík og ég gagnrýndi með hvaða hætti Sjálfstæðisflokkurinn er að knýja allt nám á háskólastigi inn á braut skólagjalda. Sérstaklega væri þetta áberandi með þessum sameiningaráformum þar sem þar með stæðu ákveðnar námsbrautir í tækninámi ekki til boða nema gegn háum skólagjöldum. Ég segi háum skólagjöldum því að um þessar mundir er háskólanám í Háskólanum í Reykjavík gjaldfært upp á 200 þús. kr. á ári í skólagjöld. Ég hef lagt áherslu á að með því að fara þessa leið sem hæstv. menntamálaráðherra er að fara varðandi þessa sameiningu sé efnahagslegu jafnrétti til náms ógnað.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði í þessum umræðum að hún vildi efla nám í tæknigreinum og verkfræði og það mátti skilja á ummælum hennar að þar vildi hún leggja mesta áherslu á verkfræðinámið. Tækninámið virðist eiga að vera hornreka við þessa sameiningu. Ef það er menntapólitísk niðurstaða stjórnvalda að Tækniháskólinn sem stofnaður var með lögum frá Alþingi fyrir tveimur árum og hefur í raun aldrei fengið byr í seglin skuli lagður niður þarf að svara því hvernig best verði staðið að því, hvernig því námi sem skólinn hefur boðið upp á hingað til verði best fyrir komið innan annarra stofnana. Síðan þetta var hafa komið upp hugmyndir, bæði frá Félagi geislafræðinga og lífeindafræðinga sem áður kölluðust meinatæknar um að ákveðnir þættir í heilbrigðisgreinunum sem Tækniháskólinn hefur kennt verði fluttir til læknadeildar Háskóla Íslands og Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar, hefur ekki tekið því fjarri.

Ég verð að segja að mér finnist sú tillaga vera skynsamleg úr því sem komið er en það má líka spyrja hvort ekki hefði verið skynsamlegt að menntamálayfirvöld skoðuðu það hvort ekki mætti flytja verkfræðinámið eða þann þátt námsins í Tækniháskólanum yfir til verkfræðiskorar verkfræðideildar Háskóla Íslands.

Það er í fleiri horn að líta í þessum efnum, virðulegi forseti, og mér sýnist allt ráðslag hæstv. menntamálaráðherra í þessu máli hafa einkennst af óðagoti og flumbrugangi. Hún hefur ekki komið með nein haldbær rök fyrir sameiningu þessara tveggja skóla en vonandi sýnir hún við þessa umræðu að hún hafi eitthvað til málanna að leggja, hafi hugsað þetta lengra en skilja mátti af ræðu hennar úr þessum stóli 20. október sl.

Tækniháskóli Íslands er nýr háskóli sem byggir á gömlum merg. Meðal þess sem hann býður nemendum sínum upp á er nám við svokallaða frumgreinadeild en hún er hugsuð til undirbúnings undir háskólanám, ætluð starfandi iðnaðarmönnum og verkmenntuðu fólki. Í henni er boðið upp á nokkurs konar ígildi stúdentsprófs raungreina og hlýtur að vera eðlilegt í þessu sambandi að leggja þá spurningu fyrir hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér að þeir nemendur verði framvegis rukkaðir um 200 þús. kr. í skólagjöld á ári. Þá væri skörin farin að færast upp í bekkinn, hæstv. forseti. Sjálfstæðismenn virðast hættir að sjá fótum sínum forráð í þessum efnum. Að öðru leyti eru spurningar mínar á þskj. 96 og tel ég ekki ástæðu til að fara frekar í þær hér.