131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:19]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þann sérfræðing sem nefndur er til sögunnar er ekki gert ráð fyrir að gefa upp nafn hans að svo stöddu en á hinn bóginn get ég upplýst að þarna er um að ræða einn fremsta sérfræðing á þessu sviði í heiminum öllum.

Þegar verið er að tala um þjóðarréttinn og hvernig menn fara með hann og fundið er að því að ekki hafi verið farið að þjóðarrétti varðandi ákvörðun íslenskra stjórnvalda varðandi Írak, sem ég andmæli fullkomlega, þá kemur óvart að menn vilja ekkert með þjóðarrétt að gera þegar kemur að ferðum rússneska flotans. Því hvort sem okkur líkar betur eða verr var rússneski flotinn innan ramma þjóðarréttarins. Þeir tilkynntu bæði okkur og norskum yfirvöldum með ríkulegum fyrirvara að þeir yrðu á tilteknu mánaðartímabili í norðurhöfum við æfingar og óskuðu eftir því m.a. að geta fengið hér aðstöðu fyrir neyðarlendingar ef sú staða kæmi upp, svo og í Noregi, og þeim var heitið því af báðum löndunum að þeir fengju slíka aðstöðu til neyðarlendinga ef á þyrfti að halda. Allt var þetta innan ramma þjóðarréttareglna.

Hitt er annað mál að við fylgdumst auðvitað mjög vel með æfingunum, bæði Landhelgisgæslan okkar og jafnframt samstarfsþjóðir okkar í NATO. Bæði voru flugvélar frá Norðmönnum og Bretum sendar yfir svæðið. Þyrlur varnarliðsins voru um hríð staðsettar á Egilsstöðum og þotur varnarliðsins flugu yfir svæðið og könnuðu það, auk þess sem fylgst er með slíkum hlutum með öðrum hætti og fjarlægari eins og menn þekkja.