131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:33]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef kannski farið vitlaust með á hvers vegum þessi ágæti Svíi var, ég var svo sem að giska á það. Ég reyndar vissi ekki að hinn merki fjölmiðill Vefþjóðviljinn væri svo burðugur að hann væri að kosta hingað mannskap, það er sjálfsagt eitthvað nýtt. (Gripið fram í.)

Það sem ég las um þennan ágæta Svía virtist vera það að hann vildi byggja málflutning sinn á því sem lægi fyrir, miða við það sem hefði verið sagt og byggja sitt á staðreyndum en ekki spám. Hann sagði að engar mælingar, eins og ég las þetta, sem þegar lægju fyrir styddu fullyrðingar um þá aukningu á massa hafsins, öndvert við spár og slíka hluti. Ég skal ekki setjast í dómarasæti um það efni en spárnar hafa gjarnan verið dálítið sveigjanlegar og víðtækar og bilið langt þar á milli.

Það skiptir ekki máli hvort vísindamenn eru 300, 500 eða 1.000 og fáir á móti því að það er nú alþekkt, eins og Sigurður Nordal benti á, að þekking verður ekki endilega lögð saman þannig að hún aukist eftir því sem fleiri koma saman. Lengi vel var Einstein einn í minni hluta með afstæðiskenninguna en ég hygg að hún hafi verið rétt samt. Fleiri dæmi má nefna úr vísindaheiminum. (Gripið fram í.)

Varðandi hins vegar afstöðu okkar hefur hún legið fyrir varðandi það. Við tókum afstöðu með þeim sem vildu samþykkja og undirskrifa Kyoto-bókunina. Það hefðum við Íslendingar ekki gert nema vegna þess að við töldum hættumerki á ferðinni, ella hefðum við ekki gert það. Við takmörkuðum til að mynda þær heimildir sem við höfðum sjálf (Forseti hringir.) til að standa fyrir stóriðju af þeim ástæðum.