131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:43]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur illa hlustað á ræðu mína eða kosið að heyra vitlaust það sem ég sagði. Ég sagði að við þyrftum ekki undanþágu frá fiskveiðistjórnarkerfinu, við þyrftum ekki undanþágu við aðildarviðræður. Ég sagði: Fordæmin eru til, þau eru til í aðildarviðræðum Svíþjóðar og Finnlands við Evrópusambandið þegar skilgreint var að fyrir ofan 62. breiddargráðu ætti að vera skilgreindur sérstakur heimskautalandbúnaður sem lyti öðrum reglum en í landbúnaðarstefnunni almennt.

Ég nefndi einnig að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins gengur út á sameiginlega fiskstofna, hún gengur út á sameiginlega efnahagslögsögu og sameiginlega fiskstofna. Íslensk efnahagslögsaga liggur ekki að efnahagslögsögu Evrópusambandsins. Við eigum ekki sameiginlega fiskstofna nema einstaka flökkustofna og um þá er þegar samið. Ég sé því ekki að sjávarútvegurinn verði sá akkillesarhæll sem menn hafa gjarnan talið. Ég þykist greina það hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að hann sé sammála ríkisstjórninni um að „sitja-hjá-pólitíkin“ í þessum efnum sé málið (Gripið fram í.) og við eigum að sitja og fylgjast með nokkur ár í viðbót (Gripið fram í.) eða standa fyrir utan. En ég er algerlega ósammála því.

Ég sagði í ræðu minni áðan að þessi „sitja-hjá-pólitík“ muni fara illa með okkur á endanum vegna þess að við verðum að fara inn á undan Norðmönnum til að tryggja hagsmuni okkar innan Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum.