131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:44]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni að mannréttindi væru algild og við ættum að flytja út lýðræðið og mannréttindin. Ég er sammála þessu. Ég er í hjarta mínu alveg sammála þessu. Þá verðum við líka að gera það. Þá verðum við að hafa burði og þrek til að horfa í eigin barm þegar okkur mistekst. Þegar t.d. það gerist í kjölfar innrásar í annað ríki að innrásarherirnir verða uppvísir að því að pynta, beita hrikalegum pyntingum í fangelsum sem þeir stýra og verða uppvísir að grófum mannréttindabrotum, þá ætlumst við til að menn hafi þrek og burði til að ræða slíka hluti. Ekki einu einasta orði er vikið að slíkum málum í ræðu hæstv. utanríkisráðherra. Þetta er ekki trúverðugt. Ég er hins vegar sammála honum um að vinna að friði og lýðræði í heiminum, en þá verðum við líka að gera það og beita aðferðum sem eru líklegar og vænlegar til að ná því markmiði.

Varðandi skoðanakannanir í Afganistan þá kaupi ég þær ekki alveg. Ég get mér til um að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vilji búa við frelsi og lýðræði. Staðreyndin er hins vegar sú að á stórum svæðum landsins ríkir ekki frelsi og lýðræði, þar býr þjóðin við ógnarstjórn stríðsherra sem bandaríska hernámsliðið samdi við; stríðsherra sem beita konur harðræði, sem fótumtroða réttindi þeirra og mannréttindi almennt. Það er þetta sem ég vakti máls á í ræðu minni áðan og vitnaði þar í afganskar kvenréttindakonur.