131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:10]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Forsætisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum. Markmið frumvarpsins er að binda enda á þá kjaradeilu sem nú hefur staðið í rúmt hálft ár á milli Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga.

Deiluaðilar hafa haldið 71 fund hjá ríkissáttasemjara. Kennarasambandið hefur fylgt eftir kröfum sínum með verkfalli sem fyrst stóð í fimm vikur.

Við atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara og að höfðu samráði við deiluaðila var verkfalli frestað í rúma viku. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var sú að 93% greiddu atkvæði gegn miðlunartillögunni. Hún var því felld. Það var mat ríkissáttasemjara, að morgni miðvikudagsins 10. nóvember eftir fund með deiluaðilum, að engin ástæða væri til bjartsýni um lausn þessarar kjaradeilu.

Hæstv. forseti. Fjárhagsleg málefni sveitarfélaga og tekjuskipting þeirra og ríkisins eru til stöðugrar umfjöllunar sem eðlilegt er. Þau eru hins vegar ekki grundvallaratriði þessa máls. Sveitarfélögin hafa metið það svo, að öllu virtu m.a. stöðu mála gagnvart öðrum starfsmönnum sínum, að svigrúmið til samninga við kennara hafi verið fullnýtt og kannski vel það. Það er hins vegar mikil einföldun á þeirri stöðu sem uppi er að til að leysa hana hafi einungis þurft meira fé og þá frá ríkinu. Það vita þeir sem vita vilja.

Hinn 9. nóvember síðastliðinn barst forsætisráðherra bréf frá umboðsmanni barna. Í því er lýst þungum áhyggjum af stöðu mála og horfum í þeirri kjaradeilu sem hér er til umfjöllunar. Ástæða er til að vekja athygli á ummælum umboðsmanns sem segir að yfirstandandi verkfall grunnskólakennara hafi fyrst og fremst bitnað á þeim sem síst skyldi, þ.e. börnum þessa lands, samtals 45 þúsund talsins. Hætta er á því að mörg þeirra muni bíða ómetanlegt tjón ef það dregst enn frekar á langinn.

Í viðtali í Ríkisútvarpinu við sálfræðing á miðvikudagskvöldið var, kom fram að vænta mætti að börnum sem þurfa á sálfræðiþjónustu að halda mundi fjölga. Það taldi hann einkum gilda um þau börn sem eru veik fyrir eða af einhverjum ástæðum ístöðulaus. Þær afleiðingar verkfallsins munu koma í ljós á næstu mánuðum og jafnvel árum.

Samtökin Heimili og skóli hafa sent frá sér áskorun til samningsaðila um að þeir hugi í alvöru að hagsmunum og velferð barna og fresti umsvifalaust verkfalli. Samtökin vísa réttilega í lög um stéttarfélög og vinnudeilur sem heimila slíka frestun með samþykki beggja samningsaðila. Í áskoruninni er lögð áhersla á að verkfallið hafi allt of lengi bitnað á saklausum þriðja aðila og að samningsaðilar hljóti að sjá að það er ekki hægt að bjóða börnunum upp á a.m.k. tveggja vikna verkfall til viðbótar. Í lok áskorunar Heimilis og skóla segir að alvarleg brot á réttindum barna verði ekki liðin deginum lengur.

Hæstv. forseti. Barnaverndarmálefni heyra undir félagsmálaráðuneytið. Starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess hafa haft þungar áhyggjur af framvindu þessarar kjaradeilu. Afleiðingarnar af fyrri kjaradeilum kennara og viðsemjenda þeirra hafa verið þær að nemendur, einkum á efri stigum, hafa hætt námi og farið út á vinnumarkaðinn ef um slíkt hefur verið að ræða. Kjaradeilur af þessu tagi hafa þýtt námslok fyrir þá nemendur.

Félagsmálaráðuneytið og stofnanir þess fara einnig með málefni vinnumarkaðarins. Starfsfólk sem vinnur að þeim málum er mjög vel meðvitað um tengsl menntunar og stöðu á vinnumarkaðnum í samfélagi þar sem menntun og kunnátta skipta höfuðmáli. Þar er beint orsakasamhengi á milli. Það sem hér er í húfi er hvorki meira né minna en tækifæri einstaklinga til að skapa sér framtíð í þekkingarsamfélaginu.

Hæstv. forseti. Af framangreindu er ljóst að þessi deila er komin á mjög alvarlegt stig og krefst aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að horfa upp á að grunnskólanemendur bíði af varanlegt og ómetanlegt tjón ef svo fer sem horfir, að deilan haldi áfram. Ríkisstjórninni ber skylda til að grípa í taumana.

Nokkuð hefur verið um það rætt að ýmsir alþjóðasamningar og skuldbindingar komi í veg fyrir að ríkisstjórnin geti gripið inn í kjaradeilur með þessum hætti. Í þessu sambandi er oft bent á alþjóðasamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, nr. 87, um félagafrelsi, og nr. 98, um samningsfrelsi og ákvæði félagsmálasáttmála Evrópu. Ríkisstjórnin hefur ávallt lagt áherslu á að samtök aðila vinnumarkaðarins semji sín á milli um kaup og kjör launafólks í frjálsum kjarasamningum. Það hefur ekkert breyst í því efni eins og hefur sýnt sig í þessu máli. En ríkisstjórnin hefur haldið að sér höndum í kennaradeilunni fram til þessa þrátt fyrir gagnrýni ýmissa aðila.

Framangreindir fjölþjóðlegir samningar, sem Ísland hefur fullgilt, gera allir ráð fyrir undanþágu frá meginreglunni um frjálsar kjaraviðræður aðila vinnumarkaðarins til verndar almannahagsmunum, öryggi þjóðarinnar, heilsu og siðgæði.

Þegar horft er til þess í hvaða farveg deilan er komin er ríkisstjórnin þeirrar skoðunar að aðstæður séu með þeim hætti að almannahagsmunir, einkum og sér í lagi hagsmunir 45 þúsund barna og fjölskyldna þeirra, kalli á aðgerðir.

Við samningu frumvarpsins hefur verið höfð hliðsjón af áliti Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að samningsaðilum verði gefinn frestur til 15. desember næstkomandi til að ljúka samningum sín í milli. Hafi það ekki tekist er kveðið á um að Hæstiréttur Íslands tilnefni þrjá menn í gerðardóm sem skuli skera úr um kjaramál grunnskólakennara og skólastjórnenda. Gerðardómurinn skal hafa lokið störfum fyrir 31. mars á næsta ári.

Gert er ráð fyrir að ákvarðanir gerðardómsins verði bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með 15. desember í ár og gildi þann tíma sem gerðardómur ákveður. Þá er tekið fram í greininni að endanlegt uppgjör launa samkvæmt hinum nýju ákvörðunum skuli fara fram 30. apríl á næsta ári.

Hæstv. forseti. Með þessu er farið eins vægt í sakirnar og unnt er en bundinn endi á einhverja erfiðustu kjaradeilu seinni tíma. Kliður á þingpöllum.

(Forseti (BÁ): Forseti áréttar að gestum á þingpöllum ber að hafa hljóð meðan þingfundur stendur.)