131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:17]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir þremur árum gerði ríkið kjarasamning við framhaldsskólakennara sem að sjálfsögðu sló tóninn varðandi þau kjör sem allir kennarar í landinu hljóta að eiga að búa við til framtíðar.

Í 3. gr. frumvarps til laga sem við ræðum í dag segir, með leyfi forseta:

„Við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð.“

Túlkar hæstv. félagsmálaráðherra þessa grein frumvarpsins þannig að viðmiðunarhópurinn sé framhaldsskólakennarar eða getum við fengið nánari útskýringu á þessari grein og mati hæstv. ráðherra. Við hvað er átt og við hvað skal gerðardómur miða? Er þarna átt við framhaldsskólakennara, eða hvaða stétt aðra ef svo er ekki?