131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:23]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hverjum þeim manni kunnugt sem fylgst hefur með framgangi mála í viðræðum ríkis og sveitarfélaga um tekjuskiptinguna að þar hafa verið uppi skiptar skoðanir um talsvert langan tíma síðastliðið sumar, sérstaklega um efnistök nefndarinnar. Nú hefur verið komið skikki á þau mál, eins og hv. þm. Kristján Möller veit. Það var gert með viljayfirlýsingunni sem ég nefndi áðan.

Ég tel að þau mál séu komin á ágætan rekspöl. Fulltrúar Sambands sveitarfélaga og ríkisins eiga í viðræðum um tekjuskiptinguna og tekjugrundvöll sveitarfélaganna. Ég bind að sjálfsögðu, hæstv. forseti, miklar vonir við að okkur takist að koma þeim á rétt ról.