131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þau eru þung, sporin í ræðustól Alþingis í dag. Þau eru þung vegna þess að hér er nú verið að grípa inn í fullkomlega löglega kjaradeilu með lagasetningu. Minn stjórnmálaflokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, mótmælir þessari lagasetningu.

Við erum í grundvallaratriðum ósátt við að þetta skuli vera að gerast. Hvers vegna? Vegna þess að þessi leið felur í sér valdbeitingu, valdbeitingu sem aldrei getur verið ásættanleg leið til að leysa kjaradeilu. Það á ekki að skipa kjörum með lögum. Það á að semja um kaup og kjör í landi sem þykist búa við lýðræðislega stjórn. Ráðstjórninni hér er ekki lagið að leysa deilur án valdbeitingar. Ríkisstjórnin hefur haft í hendi sér lausn á þessari deilu frá fyrsta degi en hún hefur ekki talið ástæðu til að leysa deiluna eða koma að lausn hennar. Svo segir hæstv. forsætisráðherra núna að ríkisstjórnin hafi ekki sóst eftir aðild að þessu máli.

Ríkisstjórnin hefði allan tímann getað beitt sér með öðrum hætti en hún gerir í dag. Hún hefði t.d. getað beitt sér með því að gefa yfirlýsingu um að sveitarfélögunum yrði gert það kleift að borga kennurum mannsæmandi laun. Hæstv. félagsmálaráðherra er búinn að tala út um það, það á ekki að leysa deiluna með slíkri yfirlýsingu. Hæstv. félagsmálaráðherra svaraði spurningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar þar að lútandi neitandi. Það var afar skýrt svar.

Maður spyr óhjákvæmilega: Hvers vegna vill ekki ríkisstjórnin leysa eða reyna að lempa þessa deilu með öðrum hætti en hér er lagt til? Hún hefur haft það í hendi sér allan tímann. Vegna þess eins að deilan snýst um það að sveitarfélögin hafa ekki það bolmagn sem þarf til að greiða kennurum mannsæmandi laun sem hæstv. menntamálaráðherra er þó búin að gefa yfirlýsingar um úr þessum ræðustóli að hún vilji að gert verði. Hvernig geta menn talað svona eins og þeir tala hér? Ef hæstv. menntamálaráðherra vill að kennarar fái mannsæmandi laun á hún að vita að það verður ekki gert öðruvísi en að sveitarfélögin fái til þess aukna tekjustofna. Þetta er lykillinn í málinu. Menn tala hér fullkomlega óábyrgt. Hæstv. ríkisstjórn verður að tala af meiri ábyrgð um þetta mál en hæstv. ráðherrar hafa gert hér á þessum fundi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Hæstv. forseti. Mig langar að gera hér í stuttri ræðu að umtalsefni makalaust viðtal við hæstv. menntamálaráðherra sem var í sjónvarpi í gær, algerlega makalaust viðtal. Ég fullyrði að hæstv. menntamálaráðherra hefur á afskaplega skömmum tíma tekist að koma sér út úr húsi hjá þeirri stétt sem hún á mest undir í embætti sínu, kennara, grunnskólakennara og raunar alla kennara í landinu. Það er með ólíkindum að hún skuli leyfa sér að segja það sem hún sagði í viðtali við fréttamenn Stöðvar 2 í gær.

Hæstv. ráðherra segir að kennarar eigi rétt á góðum launum. Hún segir úr þessum ræðustól í dag að kennarar eigi að fá mannsæmandi laun. En það má ekki ógna stöðugleika, segir hún í sama orðinu. Hið nákvæmlega sama kemur fram í lagafrumvarpinu sem við hér fjöllum um. Já, já og nei, nei, upp á framsóknarmátann. Það á að sjá til þess að gerðardómur hafi hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð. En jafnframt þarf að gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.

Hæstv. forseti. Hvernig ætla hæstv. ráðherrar að sjá til þess að þetta sé framkvæmanlegt? Ég fullyrði úr þessum ræðustól að það er ekki hægt. Það þarf að taka djarfa ákvörðun um laun grunnskólakennara. Það verður ekki gert með því að passa upp á hvort tveggja í einu eins og 3. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir. Það verður bara ekki gert.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði í þessu viðtali í gær að munurinn á grunnlaunum framhaldsskólakennara og grunnskólakennara væri 6–7%, en henni láðist að geta þess að munurinn á heildarlaunum framhaldsskólakennara og grunnskólakennara er 34%. Þrjátíu og fjögur prósent og hvers vegna er það svo? Það er vegna þess að samningur framhaldsskólakennara skilgreinir vel vinnu, vinnutíma og vinnuframlag framhaldsskólakennaranna. En í tilfelli grunnskólakennaranna er stöðugt verið að reyna að koma allri vinnu inn í grunnlaunin. Það er þvingunin sem grunnskólakennarar hafa mátt þola vikum saman, í raun alveg frá því einhverjar viðræður fóru af stað við launanefnd sveitarfélaganna.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki leyfi til að blekkja þjóðina með yfirlýsingum á borð við þessa, að launamunur grunnskólakennara og framhaldsskólakennara sé einungis 6–7%. Hún á að segja allan sannleikann.

Hæstv. menntamálaráðherra hélt áfram: „Allir voru mjög ánægðir með síðustu samninga.“ Að vísu bætti hún við innan sviga að svo hefði a.m.k. verið framan af.

Hvernig fór atkvæðagreiðslan um síðustu grunnskólakennarasamninga? 53% samþykktu þá. Þeir slefuðu inn. Hvernig getur hæstv. menntamálaráðherra sagt að allir hafi verið ánægðir með þá samninga, a.m.k. framan af, þegar hún veit betur? Er þetta ábyrg ríkisstjórn? Ég segi nei. Þetta er ekki ábyrg ríkisstjórn.

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra klifar á því að samningatæknin sé önnur í nágrannalöndum okkar og við þurfum að innleiða nýja samningatækni í okkar málum. Gott og vel. Samningatækni má kannski kalla það. Það sem m.a. hefur verið rætt í þessari deilu í sambandi við samanburðinn við nágrannalöndin er að þar er skynsamlega á málum haldið í kjaraviðræðum. Kennarar fá að koma að borðinu og ræða við samningsaðila sína einu sinni á ári. Til hvers? Til þess að fara í nauðsynlegar leiðréttingar og til þess að viðmiðin haldist. Til þess að kennarar detti ekki úr því samfloti sem samkomulag hefur verið um í samfélaginu að þeir fengju að halda.

Okkar grunnskólakennarar hafa náð að haldast í hendur við framhaldsskólakennara. Fyrir örfáum árum var hlutfallið þannig á milli þessara tveggja stétta að það var fullkomlega ásættanlegt. Ef það hefur gerst, sem gerst hefur, að grunnskólakennarar hafa dottið fullkomlega úr tengslum við viðmiðunarstéttina sína, framhaldsskólakennara, af hverju getum við ekki bara sest niður og leiðrétt það? Hvers vegna getum við það ekki? Er það kannski vegna þess að það er ekki vilji hjá hæstv. ríkisstjórn til að leiðrétta það? Er það vegna þess að það er ekki vilji hjá ríkisstjórninni til að halda föst launaviðmið? Nágrannalönd okkar setja sér föst launaviðmið og tryggja að viðmiðunarstéttir geti haldist í hendur. Það gerir ekki ríkisstjórn Íslands, henni er nákvæmlega sama. Ef henni væri ekki sama þá væri hún búin að beita sér fyrir því að slíkt yrði gert og viðmiðunarstéttir fengju að haldast í hendur. Þannig væri verkföllum afstýrt og því ástandi sem við erum að berjast við nú væri afstýrt. Við þyrftum ekki að horfast í augu við það aftur og aftur.

Ábyrgðin er að þessu leyti enn á herðum hæstv. ríkisstjórnar. Hún er að reyna að varpa henni á herðar þar sem ábyrgðin á ekki heima.

Áfram vitna ég í viðtalið við hæstv. menntamálaráðherra frá því í gær. Tekjuskiptingin alltaf uppi á borðum, alltaf verið að ræða um tekjuskiptingu sveitarfélaganna og ríkisins, segir hæstv. ráðherra. Virðulegur forseti. Þetta er rangt. Það hefur varla verið hægt að aka nefndinni að störfum sem á að sjá um að ræða um skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaganna. Hundrað óðir hestar hafa ekki náð þessu fólki saman til fundar. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þessi nefnd er umboðslaus, vegna þess að ríkisstjórnin vill ekki að hún fái meira fjármagn. Ríkisstjórnin er upptekin við að lækka skatta á hátekjufólki á sama tíma og þessi vesalings nefnd er látin sitja úti í horni vitandi það að hún fær engin vilyrði frá ríkisstjórninni um að hún geti aukið við tekjustofna sveitarfélaganna. Þetta er líka á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.

Það er út af svona máli sem ríkisstjórnin ætti auðvitað að skammast sín. En þess í stað situr hún einhvers staðar ... — ég hélt að hæstv. forsætisráðherra og kannski hæstv. menntamálaráðherra væru í salnum en svo er ekki í augnablikinu. Engu að síður er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki staðið undir þeirri ábyrgð sem þjóðin ætlast til að hún standi undir.

Svo segir hæstv. menntamálaráðherra að þetta snúist ekki um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hvernig ætli sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga líði við að heyra svona yfirlýsingar, sveitarfélaga sem eru nánast gjaldþrota í gjörgæslu ríkisstjórnarinnar, félagsmálaráðuneytisins, vegna þess að ekki eru til peningar í þeim sveitarfélögum til að standa þannig að rekstri grunnskólanna að sveitarstjórnirnar séu fullsæmdar af?

Þarna hefur ríkisstjórnin haft í hendi sinni verkfæri allan þennan tíma sem hún hefur ekki látið svo lítið sem að taka á eða reyna að beita. Svo fullyrðir hæstv. ráðherra að þetta snúist ekki um tekjuskiptinguna. Það er rangt.

Hæstv. ráðherra sagði líka í þessu viðtali að sveitarfélögin gætu ekki komið til móts við kennara þó þeir hefðu allan ríkissjóð til umráða. Það sagði hæstv. menntamálaráðherra í umræddu viðtali í gær. Heyr á endemi, virðulegur forseti. Svona segir maður ekki ef maður er menntamálaráðherra. Það gerir maður bara ekki. Það er auðvitað ekki hægt að svara svona bulli með neinum rökum.

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sagði líka í viðtalinu að það færi eftir því hvernig sveitarfélögin forgangsröðuðu hver laun kennara væru. Þetta er líka rangt. Hæstv. menntamálaráðherra verður að kynna sér málefni sveitarfélaganna, tekjustofna sveitarfélaganna og samkomulagið sem gert var við sveitarfélögin 1996 áður en hún lætur meira út úr sér um þessi mál. Árið 1996 var gert samkomulag um grunnskólana. Einu sinni frá því herrans ári 1996 hefur ákveðin leiðrétting verið gerð af því það var viðurkennt að ríkið hefði aukið kröfur til grunnskólanna. Hvað meira? Ekki söguna meir. Af hverju halda menn að samkomulagið frá 1996 eigi að geta staðið óbreytt um aldur og ævi?

Hér höldum við háttvirtir alþingismenn áfram að setja lög sem auka kröfur til grunnskólanna. Við höfum einsett grunnskóla og höfum aukið vægi samræmdra prófa. Við viljum grunnskóla með aðgengi fyrir alla, án aðgreiningar, sem þýðir aukna stoðþjónustu í skólunum. Við viljum auka frístundastarfið og meiri samvinnu milli heimila og skóla. Allt þetta höfum við sett í lög og menntamálaráðherrar sett í námskrár. En það má ekki endurskoða samkomulagið sem gert var við sveitarfélögin frá 1996. Það má ekki auka tekjustofna sveitarfélaga til að þau geti staðið undir þeim skyldum sem þau gjarnan vilja standa undir gagnvart kennurum, gagnvart börnum og gagnvart foreldrum barnanna.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að orð hæstv. menntamálaráðherra í viðtalinu í gær gengu gjörsamlega fram af mér. Ég þori að fullyrða að ég sé ekki ein um það í samfélagi okkar að ofbjóða. Það er ekki boðlegt að að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér að segja að hún vilji fá besta fólkið inn í skólana, það eigi að greiða þau laun sem til þarf og okkur beri skylda til þess, eins og hún sagði í ræðu sinni hér áðan, en neita á sama tíma að horfast í augu við að það þurfi að stokka upp í tekjuskiptingu sveitarfélaga og ríkisins. Á sama tíma veður hún áfram með restina af hæstv. ríkisstjórn í framvarðasveitinni og ætlar að lækka skatta á hátekjufólk. Þetta er ekki boðlegur málflutningur, virðulegi forseti. Hann er langt frá því að vera trúverðugur.

Ég ætla að leyfa mér að segja það, virðulegur forseti, að mér finnst skammarlegt að hæstv. menntamálaráðherra, sem er kona, skuli tala á þeim nótum sem hún hefur talað til kvennastéttar. Auðvitað er ekki óeðlilegt að maður velti fyrir sér á hvern hátt kennarastéttin hefur þurft að gjalda þess að vera kvennastétt. Það kemur fram í máli hæstv. ríkisstjórnar án þess að það sé sagt beint, þar kemur í ljós viðhorf sem er ekki boðlegt.

Ég vil líka nefna til sögunnar, hæstv. forseti, vinnupínda foreldra í samfélagi sem hvetur til stöðugrar neyslu. Meira að segja hæstv. ríkisstjórn hvetur til neyslu en hæstv. fjármálaráðherra talaði um neysluhvetjandi aðgerðir þegar hann talaði fyrir fjárlagafrumvarpinu í tengslum við skattalækkanir — neysluhvetjandi, vinna meira. Ég spyr, virðulegi forseti: Er ekki eðlilegt að álykta að því minni tíma sem við foreldrar höfum til að vera með börnum okkar, því meiri þörf verði á öflugu kennaraliði í grunnskólunum? Við vitum það, ef við ætlum að vera sanngjörn, að ástandið á vinnumarkaðnum mun ekki breytast í dag eða á morgun. Við höldum áfram að vera vinnupíndir foreldrar. Engin þjóð í Evrópu sem vinnur annað eins og Íslendingar.

Meðan við vinnum eins og brjálaðir menn og höfum ekki tíma til að sinna börnum okkar, hvorki kvölds eða að morgni eða um miðjan dag, getum við þá ekki staðið saman um það að sú stétt sem við felum þá ábyrgð fái mannsæmandi laun? Ég segi jú. Auðvitað eigum við að geta staðið saman um það. Ekki segja okkur að það séu ekki til peningar í samfélaginu til að gera nákvæmlega það, sjá til að kennarar fái mannsæmandi laun, því að þeir eru til.

Forgangsröðum rétt og stokkum spilin. Forgangsröðum og ákveðum að gefa vægi þeim málum sem eiga að fá vægi, þ.e. uppeldi og menntun barnanna okkar. Við erum að tala um grunnmenntun þjóðarinnar. Ríkisstjórnin státar af því að við séum með öfluga menntastefnu og talar fjálglega um það, ekki bara á tyllidögum heldur í tíma og ótíma, hversu mikið það eigi að auka vægi menntunar og hækka menntunarstig þjóðarinnar. En á sama tíma neitar ríkisstjórnin kennurum um mannsæmandi laun og tekur af þeim þau mannréttindi sem eðlilegt er að fólk hafi með 2. gr. í þessu frumvarpi sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði mjög vel grein fyrir í ræðu sinni í morgun. Þar eru kennarar í raun ólaðir niður við samningaborðið til að horfast í augu við viðsemjendur sína til 15. desember.

Ég held að við verðum að fá svör við því hvers vegna ráðherrarnir hafa ekki óskað eftir því að gerðardómur kæmi þá strax til starfa. Hvers vegna þessi tími til 15. desember? Ekki kom hæstv. forsætisráðherra að því einu orði í ræðu sinni hver væru rökin fyrir því ráðslagi. Mér finnst kennurum sýnd fullkomin óvirðing með því. Mér finnst launanefnd sveitarfélaganna sýnd óvirðing með því. Það er fullreynt í þeim ranni úr því við erum komin að því að ræða um gerðardóminn. Við erum búin að fullreyna að ná samningum. Það fæst ekki meira út úr því að sitja og stara yfir samningaborð til 15. desember.

Virðulegur forseti. Þetta mál er afar alvarlegt eins og hér hefur komið fram í máli þingmanna. Ríkisstjórnin hefur eins og ég sagði í upphafi haft ákveðin tæki í höndunum frá degi eitt sem hún hefur neitað að beita. Við þingmenn höfum líka haft ákveðin tæki í höndunum sem við hefðum getað skoðað betur en við höfum gert. Ég vil þar nefna frumvarp til laga sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu fram fyrir nokkrum vikum um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem við gerðum ráð fyrir því að rýmkuð yrði heimild sveitarfélaganna til álagningar útsvars þannig að heimildin yrði hækkuð um eitt prósentustig.

Frumvarpið er að hluta til flutt í tengslum við þau áform ríkisstjórnarinnar að lækka álagningu tekjuskatts um 1% um næstu áramót. Þetta er ákveðin björgunaraðgerð sem við leggjum til, mótvægisaðgerð við fyrirhyggjulausar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar þannig að með þeirri aðgerð mundi samanlagt álagningarhlutfall tekjuskatts og hámarks útsvarsheimildar haldast óbreytt og vera 38,78%. Ég held að þetta tæki sem við lögðum til, sem hefði getað verið virkt tæki í þessari umræðu, sé svo sem enn vel til skoðunar og hæstv. ríkisstjórn hefði mátt taka stjórnarandstöðuþingmenn sér til fyrirmyndar og reyna að líta þannig yfir sviðið að horft væri til annarra hluta en þeirra sem við ræðum hér.

Eins og ég sagði er það þyngra en tárum taki að maður skuli þurfa að fara í þennan ræðustól árið 2004 eftir langvinna, erfiða og stranga kjaradeilu kennara við sveitarfélögin og ræða lagasetningu ríkisstjórnarinnar á þá kjaradeilu.

Hæstv. menntamálaráðherra æsir sig hér í ræðustól upp í það að segja að fólk vilji bara dæla meiri peningum inn í deiluna. Sannleikurinn er auðvitað sá að þessi deila verður ekki leyst nema með auknum fjármunum sem (Forseti hringir.) þurfa að fara til sveitarfélaganna og það er í valdi ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) að útdeila þeim peningum.