131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:52]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir góð orð hv. þingmanns í garð þess máls sem hér liggur fyrir og sömuleiðis undir áhyggjur þingmannsins af dvínandi trausti á kjörnum fulltrúum. Ég skil vel að hv. þingmanni líki illa að þurfa að standa á Alþingi undir dylgjum um óeðlilega fjársýslu eða fjárreiður síns stjórnmálaflokks og hygg að svo hlyti að vera um okkur öll. Sú umræða sem verið hefur undanfarna daga um fjármál stjórnmálaflokkanna hlýtur sannarlega að vera áhyggjuefni öllum þingmönnum sem hér starfa því hún varðar traust allra þeirra sem hér starfa og traust þessarar samkomu.

Ég hef í þessu sambandi sett fram hugmynd um að Ríkisendurskoðun kæmi að einhvers konar eftirliti með fjármálum stjórnmálaflokkanna. Sú hugmynd hefur verið til umræðu fyrr á þingfundinum í dag og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur tekið í svipaðan streng fyrr og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur tekið undir þær hugmyndir sömuleiðis hér í dag.

Ég vildi því inna hv. þm. Jónínu Bjartmarz eftir því hvort slíkt fyrirkomulag hugnaðist henni til þess að efla það traust sem hún gerði að umfjöllunarefni hér á kjörnum fulltrúum.