131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:56]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði að það hefði verið óþinglegt af mér að ræða um orð hv. þm. Hjálmars Árnasonar eða víkja orðum mínum að honum vegna þess að hann væri farinn úr salnum.

Nú þekkir hv. þingmaður eflaust betur en ég þingsköp Alþingis. Í 53. grein þeirra kemur fram að þingmönnum sé skylt að sækja alla fundi. Þess vegna finnst mér æði undarlegt að ég megi ekki víkja orðum mínum að þingmanni sem hefur ekki boðað forföll. Ég skil í rauninni ekkert í því að meira að segja einn af varaforsetum þingsins skuli vera að víkja orðum sínum með þeim hætti að mér. Mér finnst það vera mjög ómálefnalegt.

Síðan verð ég að segja það líka að mér finnst mjög ómálefnalegt að saka mig um að hafa verið með dylgjur þegar ég er að vitna í prófessor í Háskólanum og vitna í fréttatíma, vitna í blöð og meira að segja vitna í fyrrum gjaldkera Framsóknarflokksins, og þá er það sagt ómálefnalegt. Ég held að við ættum miklu frekar að horfa fram á veginn og spyrja okkur: Hvernig getum við losnað við þessa umræðu? Það er bara ein leið til þess, þ.e. að opna bókhaldið og láta Ríkisendurskoðun eða þar til bæra stofnun fara yfir þessa hluti.