131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Svar við fyrirspurn.

[13:33]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna skriflegrar fyrirspurnar sem ég beindi til hæstv. landbúnaðarráðherra en hún varðar framfylgd reglugerðar um sláturhús. Það er ekkert launungarmál að fyrirspurnin er í framhaldi af lokun sláturhússins í Búðardal. Spurningarnar vörðuðu það hvort landbúnaðarráðuneytið hefði gætt jafnræðis við að fylgja eftir reglugerðum um sláturhús.

Svar hæstv. landbúnaðarráðherra varpaði ekki neinu ljósi á það og virðist sem embættisfærsla hæstv. landbúnaðarráðherra þoli ekki dagsljósið. Auðvitað stangast slík vinnubrögð á við almenna stjórnsýsluhætti og stjórnsýslulög. Svarið er með ólíkindum. Í fyrstu reynir hæstv. landbúnaðarráðherra að drepa málum á dreif í löngu máli með einhverri hártogun á hugtökum. Í spurningunni var spurt um starfsleyfi en ekki löggildingu. Til þess að sláturhús fái starfsleyfi eða sláturleyfi þarf ráðuneytið að veita sláturhúsi löggildingu. Þar af leiðandi er eðlilegt að spyrja um starfsleyfi því þá hefur sláturhúsið þegar löggildingu.

Herra forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra svarar í engu hvaða kröfur sláturhús sem fengu starfsleyfi náðu ekki að uppfylla og hvað þau fengu langan frest til að lagfæra það sem út af bar. Hann svarar engu um það. Hins vegar svarar hæstv. landbúnaðarráðherra í löngu máli því sem aflaga átti að vera í sláturhúsinu í Búðardal. Ég spyr því hér og nú hvers vegna ekki er hægt að greina frá athugasemdum við hús sem fengu leyfi ef hægt er að greina frá athugasemdum vegna sláturhússins í Búðardal sem ekki fékk leyfi. Það er forsendan fyrir því að hægt sé að ganga úr skugga um að jafnræðis hafi verið gætt.

Hæstv. ráðherra skuldar ekki einungis mér skýringar, heldur miklu frekar fólkinu í Dalabyggð sem hann svipti atvinnunni.