131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:12]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hafi sérstakar áhyggjur af stöðu erlendra kvenna og þeim þætti sem sú staða kann að eiga í þeim fordómum sem hér eru til umfjöllunar. Ég vil sérstaklega þakka málshefjanda, hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrir að taka þetta mál til umræðu því að fordómar í garð innflytjenda eru sannarlega ekki jarðvegur sem við viljum rækta á Íslandi. Það hlýtur að vera okkur sameiginlegt keppikefli á Alþingi að sá jarðvegur sem við þekkjum til að mynda frá ýmsum löndum Evrópu þar sem upp hafa jafnvel sprottið pólitísk öfl sem nærast á ótta og hatri í garð innflytjenda fái aldrei þrifist hér og aldrei með þeim skelfilegu afleiðingum sem við víða höfum séð. En til þess verðum við að horfast í augu við vandann en ekki að ráðast að boðberum hans eins og mér þótti hv. síðasti þingmaður í ræðustólnum, Hilmar Gunnlaugsson, gera. Og það er skrýtið að sjá hæstv. félagsmálaráðherra koma í ræðustólinn og skilja bara ekkert í því að umburðarlyndi gagnvart erlendu vinnuafli skuli vera minna nú en áður en hann varð félagsmálaráðherra.

Það hefur auðvitað gengið á með fréttaflutningi af erlendu vinnuafli sem hafi sætt lakari kjörum, sætt slæmri meðferð, vondum aðbúnaði, af skorti á alþjóðlegum reglum og íslenskum lögum um starfsmannaleigur, um hættu á undirboðum vegna þjónustusamninga, um það hversu erfitt sé að hafa eftirlit með slíkri starfsemi og öðrum slíkum tíðindum sem eðlilega leiða til þess að fólk hefur áhyggjur af félagslegum undirboðum og því að hér sé verið að höggva að rótum íslensks velferðarkerfis. Þess vegna verður hæstv. félagsmálaráðherra að standa vaktina betur. Þess vegna dugar (Forseti hringir.) stjórnarflokkunum ekki að vísa á válega boðbera úr stjórnarandstöðunni og ég spyr hæstv. ráðherra hvort frétta sé að vænta úr starfshópi hans um alþjóðlegar starfsmannaleigur.