131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:19]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég tel þessa umræðu bæði hafa verið þarfa og tímabæra. Ég ítreka að málefni innflytjenda eru til endurskoðunar í félagsmálaráðuneytinu. Það má líka geta þess að í ráðuneytinu fylgjumst við náið með umræðum um þessi mál í nágrannalöndunum.

Hollendingar, sem eru í forustu fyrir Evrópusambandinu, héldu fyrr í þessum mánuði viðamikla ráðstefnu þar sem var fjallað um fjölmargar hliðar á málefnum innflytjenda í Evrópu. Við höfum bæði fylgst með undirbúningi og niðurstöðum þeirrar ráðstefnu. Þeirra mun eflaust gæta í samfélagi okkar á næstu missirum.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir kallaði eftir frekari rannsóknum á þessu sviði. Af því tilefni, hæstv. forseti, vil ég upplýsa að á vegum Flóttamannaráðs er unnið að rannsókn á högum og aðstæðum flóttamanna sem komið hafa til Íslands frá árinu 1975. Meðal þess sem er kannað er hvernig flóttamönnum hefur gengið að aðlagast hér á landi, mat þeirra á þjónustu og þátttöku í íslensku samfélagi og enn fremur mat á almennri líðan. Sérstaklega er kannað hvernig unglingum líður í skóla og hvernig þeim gengur að aðlagast íslenskum jafnöldrum sínum. Fyrstu niðurstöður eru væntanlegar um miðjan desember og mér þykir margt benda til, ekki síst í ljósi niðurstaðna þeirrar könnunar sem hér hefur verið til umræðu, að þörf sé á að rannsaka hag innflytjenda almennt í kjölfarið.

Ég vil líka geta þess að ég tel að huga þurfi sérstaklega að aðstæðum barna og ungmenna af erlendum uppruna. Það verkefni verður ekki leyst á farsælan hátt nema með víðtæku samráði. Í því samhengi get ég greint frá nýju verkefni sem heitir „Framtíð í nýju landi“. Markmið þess er að aðstoða víetnamska samfélagið í Reykjavík og ungmenni innan þess og veita þeim handleiðslu til að afla sér menntunar og þar með setja sér markmið og skipuleggja líf sitt svo þeir megi verða virkari borgarar í samfélaginu.

Hæstv. forseti. Þótt þetta og önnur verkefni séu mikilvæg skiptir mestu máli að það takist almenn samstaða og sátt um það í þjóðfélaginu að taka vel á móti fólki sem hingað flyst og búa því þær aðstæður að það geti fest rætur og lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Ég tel að það sé verkefni okkar allra.