131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:02]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Formaður utanríkismálanefndar á að sjálfsögðu að vita betur og miklu betur. Það liggur einfaldlega fyrir að gereyðingarvopnin voru ekki fyrir hendi og Hans Blix ráðlagði Sameinuðu þjóðunum, öryggisráðinu, frá því að ráðast inn í landið þar sem flest benti til þess að vopnin væru ekki þar.

Hvar er þá ógnin við heimsfriðinn? Það var einfaldlega ekki hlustað á hann og málflutning hans.

Ég tók líka eftir því, herra forseti, að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir svaraði engu um það sem hún staðhæfði í ræðu sinni, um tengslin á milli alþjóðlegra hryðjuverkahópa og stjórnar Saddams Husseins, sem ekki var lítið rætt í aðdraganda innrásarinnar. Því var beinlínis haldið fram, m.a. af Bandaríkjaforseta, að þar væru bein tengsl og að ljóst væri að al Qaeda ætti, gott ef ekki, lögheimili í Bagdad.