131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:36]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Vegna þess að mér var gerð grein fyrir því að stuttur tími væri leyfður hér vegna þessa máls en málið svo tekið upp síðar á dagskránni þá ætla ég að vera stuttorður. Ég lýsi því þó yfir að ég get ekki stutt þetta mál sem hér er lagt fram af nokkrum ástæðum.

Það er dálítið merkilegt þegar menn segja að á íþróttakappleikjum sé ekki hægt að syngja þjóðsönginn. En lítum aðeins aftur í tímann. Hér er skrifað um Sveinbjörn Sveinbjörnsson og segir Árni Thorsteinson svo í minningum sínum, með leyfi forseta:

„Á árunum kringum 1880 var það orðinn fastur liður í sunnudagshaldi bæjarbúa, þegar gott var veður, að þeir löbbuðu niður að Austurvelli og hlýddu þar á hornamúsik, og þótti það hressandi og skemmtileg tilbreyting. Lék flokkurinn bæði íslenzk og erlend lög, ... Var þá jafnan leikið sem síðasta lag „Eldgamla Ísafold“, eins og þjóðsöngurinn nú, enda þótt lagið væri brezkt. Lag Sveinbjörns við ljóð Matthíasar, „Ó, Guð vors lands“, var þá enn ekki búið að vinna þá hefð og vinsældir, að það gæti talizt þjóðsöngur, enda var þá svo skammt liðið frá þjóðhátíðinni, að samtíðin leit fremur á lofsönginn sem andlegan hátíðasöng bundinn atburðinum 1874, sem var tilefni ljóðsins og tónverksins. Raunar má segja, að það hafi verið ýmis sportfélög og önnur samtök, sem fyrst tóku „Ó, Guð vors lands“ upp á sína arma, sungu það á samkomum sínum og mótum og innleiddu sem þjóðsöng.“

Það voru sportfélögin sem innleiddu þetta lag sem þjóðsöng. En allir segja nú að það sé óalandi og óferjandi að spila þjóðsönginn þegar sportfélög koma saman. Menn skulu í upphafi skoða bæði uppruna sinn og hvernig svona hluti ber að.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Það var venja í félögum þessum, að allir tóku ofan, meðan lofsöngurinn var sunginn eða leikinn, og svo varð þetta brátt almenn venja, — allir voru farnir að taka ofan og söngurinn þar með orðinn sannnefndur þjóðsöngur.“

Ég vil vitna í niðurlag forustugreinar Morgunblaðsins frá því 12. þessa mánaðar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með því að breyta um þjóðsöng væri bæði brotið gegn tilgangi hans sem sameiningartákns og þeirri helgi sem hann hefur öðlast í hugum þjóðarinnar — í þeim kröftuga hljómi sem rödd þjóðar nær við að safnast og sameinast um eina hugsun og einn tón.“