131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Byggð og búseta í Árneshreppi.

213. mál
[12:10]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér þykja þær upplýsingar sem hæstv. forsætisráðherra færir okkur úr þessari vinnu vera mjög merkilegar. Ég tel að þarna séu komnar fram tillögur sem munu a.m.k. vekja mikla umræðu. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að þær leiðir sem þarna er bent á eru sumar mjög umdeilanlegar. Hugsanlega standast þær ekki allar vegna jafnræðisákvæða sem við þurfum að fara eftir og eru nefnd í stjórnarskrá og lög. Ég held hins vegar að við eigum að skoða þetta.

Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði hérna áðan þurfum við að fara ótroðnar slóðir. Þarna er um sérstakar aðstæður að ræða og við þurfum sérstök úrræði. Ég er reiðubúinn til að taka þátt í að skoða það alveg sérstaklega hvort hægt sé að gera ákveðna tilraun á þessum stað til að bæta og styrkja mannlífið með þessum aðgerðum. Sérstaklega fagna ég þeim hugmyndum sem eru þarna um sérstaka úthlutun kvóta sem bundinn yrði þessu svæði.