131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Atvinnurekstur í smáum fyrirtækjum.

95. mál
[12:52]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni. Það er út af fyrir sig alveg ljóst að ef notaðar eru hinar evrópsku skilgreiningar á því hvað skuli teljast lítil eða meðalstór fyrirtæki, það sem upp á ensku er kallað SME eða „small and medium-sized enterprises“, falla velflest íslensk fyrirtæki undir það. Það er auðvitað nauðsynlegt að menn hafi hugtakanotkun hér á hreinu og skýra og kannski væri ágætt svona til heimabrúks að við Íslendingar byggjum okkur til einhverjar aðrar viðmiðanir. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem hér er spurt út frá var einmitt bent á þann möguleika að við hefðum kannski að einhverju leyti aðrar viðmiðanir þegar við skilgreindum, miðað við íslenskan veruleika, hvað við teldum vera lítil og meðalstór fyrirtæki í atvinnulífi okkar. Hins vegar er ljóst að hin evrópska skilgreining og reglugerð Evrópusambandsins um þetta gerir það að verkum að okkur er heimilt að grípa til ýmissa sértækra ráðstafana til stuðnings fyrirtækjum svo fremi að þau falli undir þær skilgreiningar að teljast lítil eða meðalstór á evrópska vísu. Það opnar svigrúm til aðgerða sem ella væru ekki til staðar nema þá í þeim tilvikum að fyrirtækin séu jafnframt á svonefndum byggðaþróunarsvæðum.

Það er vissulega rétt sem hæstv. ráðherra kom hér inn á að það er búið að gera ýmislegt í þessum efnum, einkum síðustu tvö, þrjú, fjögur árin sem það hefur komist skipulega á dagskrá að sinna sérstaklega málefnum fyrirtækja af þessari stærð. En það sem Alþingi hefur nú ákveðið, og það skiptir miklu í þessu sambandi, er að þessu verði safnað saman á einn stað í framkvæmdaáætlun sem með reglubundnu millibili sé meðhöndluð á Alþingi, að það liggi fyrir sem kallað er á góðri skandinavísku „handlingsplan“ um það hvernig stjórnvöld á hverjum tíma eru að vinna að þessum efnum.

Ég legg líka áherslu á þá upplýsingasöfnun sem þarna er fólgin í ákvörðun Alþingis að kortlagðir verði möguleikar fyrirtækjanna, t.d. hvað varðar aðgang að fjármagni og öðru slíku.

Það er fagnaðarefni ef tímaáætlunin stendur og við fáum hér skýrslu um þetta mál haustið 2005 (Forseti hringir.) sem getur þá orðið undirstaða frekari umræðna og umfjöllunar Alþingis um þessi mál.