131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Stúdentspróf af iðn- og starfsgreinabrautum.

185. mál
[14:57]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við hljótum að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra að hún telji stúdentsprófin af starfsbrautunum jafngild hinum stúdentsprófunum og að veg þeirra eigi að efla. Þar með gerir hún væntanlega athugasemdir við það hátterni háskólanna í haust að mismuna mönnum á grundvelli þessara prófa.

Ég greip ekki alveg tölurnar sem hæstv. menntamálaráðherra nefndi. Þar kemur að erfiðleikunum með munnlegar og skriflegar fyrirspurnir, að stundum þyrftu þær að vera hvort tveggja. Hins vegar vil ég spyrja hana betur um skriflegt svar við fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar frá því í haust þar sem fram kom að Háskóli Íslands hafnaði 105 nemendum í haust, flokkað eftir deildum en ekki eftir því hvers eðlis höfnunin var, og 72 var hafnað í Háskólanum á Akureyri. Þetta heyrðist mér ekki stemma alveg við tölur hæstv. menntamálaráðherra og spyr: Veit hún eitthvað um þessa 105 og 72 nemendur í þessum tveimur skólum, hvers eðlis synjunin var?