131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Æfingaaksturssvæði.

257. mál
[18:13]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að viðbrögð hv. þingmanna sem hér hafa talað komu mér nokkuð á óvart, t.d. það sem hv. 7. þingmaður Suðurkjördæmis sagði, þ.e. að ökukennslu á Íslandi sé stórlega ábótavant. Ég tel að þingmaðurinn þurfi að færa allgóð rök fyrir slíkri fullyrðingu. Engu að síður tel ég að við eigum að leita allra leiða til að tryggja aðstæður og umhverfi fyrir þá sem kenna ungum væntanlegum ökumönnum. Þess vegna er þessi vinna í gangi núna á vegum samgönguráðuneytisins. Ég tel að engin efni séu til slíkra yfirlýsinga hjá hv. þingmönnum þó að bent sé á það núna þegar verið er að undirbúa reglugerð um ökugerði að rannsóknir hjá nágrönnum okkar, Normönnum, Finnum og Svíum, séu ekki mjög skýrar um að af þessu sé sá árangur sem menn hafa e.t.v. gert ráð fyrir.

Engu að síður tel ég að skynsamlegt sé að fara að ráðum þeirra sem þekkja best til. Ég lýsti því yfir að ég mun leita umsagnar ökukennara, Umferðarstofu og Umferðaráðs um þetta og núna í desembermánuði verður sérstaklega fjallað um þetta á vettvangi Umferðarráðs. Síðan verða teknar ákvarðanir um málið.

Ég vil að lokum vekja athygli á því að sem betur fer hefur slysatíðni hjá yngstu ökumönnunum lækkað. Þeir eru að ná betri tökum á akstrinum og vonandi verður svo áfram.