131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Notkun risabora við jarðgangagerð.

292. mál
[18:22]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. samgönguráðherra fyrir ákaflega athyglisverð svör um mál sem ég veit að mjög margir hafa velt fyrir sér. Ástæðan er einföld. Við höfum auðvitað séð af þeirri reynslu sem þegar hefur fengist af jarðgangagerð í landinu hversu miklu jarðgöng breyta fyrir byggðir landsins og við vitum hvaða þýðingu þau munu hafa til að mynda varðandi stækkun atvinnusvæðisins á Austfjörðum í tengslum við hinar miklu framkvæmdir sem þar eru, og víða um landið horfa menn til þessa möguleika varðandi jarðgangagerð. Í því sambandi vil ég aðeins vekja athygli á jarðgangagerð sem oft er rætt um og er auðvitað mikilvægt að sett verði næst í röðina, þ.e. jarðgöng sem tengja norður- og suðurhluta Vestfjarða. Ég veit þess vegna að það er ekki síst þar sem menn horfa til þeirra möguleika sem hv. þingmaður var að hreyfa og vekja athygli á. Ég held að þetta sé lýsandi dæmi um það að menn þurfa að vera mjög á varðbergi og vakandi fyrir nýjum möguleikum sem geta falið það í sér að við getum hraðað þessum bráðnauðsynlegu framkvæmdum sem nú (Forseti hringir.) er samt sem áður nokkuð í tísku að tala illa um, illu heilli.