131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Áhrif verðsamráðs olíufélaganna á skatttekjur ríkissjóðs.

[15:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég spyr nú hvers lags málflutningur það er af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að segja að það sé bara allt í lagi að ríkið hafi tekjur af þessum lögbrotum. Hvaða skilaboð eru þetta út í samfélagið, til þeirra sem hagnast á lögbrotum? Er það bara allt í lagi ef þeir verja þeim fjármunum til skynsamlegra mála? Eru þetta skilaboð til olíufélaganna, um að það sé allt í lagi að stunda lögbrot ef hagnaðinum er varið til góðra mála, til landgræðslu og fleira?

Þetta er afar sérkennilegur málflutningur og hundalógík að halda því fram, eins og hæstv. ráðherra gerði, að almenningur hafi hreinlega hagnast á þessu öllu saman. Þegar búið er að hafa af almenningi 6,5 milljarða kr. og þar af hafi ríkissjóður hagnast af bensíninu um 600 millj. kr.

Hæstv. ráðherra leggst í vörn til að réttlæta það að ríkið geti haldið þessum ránsfeng eftir og skili honum ekki til almennings í lækkuðu bensíngjaldi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann líka að leggjast í vörn gegn því að sektargreiðslunum verði skilað í lækkuðu eldsneytisverði til landsmanna eins og við þingmenn höfum farið fram á? Ég spyr hæstv. ráðherra um það. Hæstv. ráðherra reyndi ekkert að hrekja þá útreikninga sem ég hef lagt fram til grundvallar þessari kröfu, sem er sannarlega réttmæt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann virkilega ekki að láta athuga, t.d. hjá Ríkisendurskoðun, hvað ríkið hefur hagnast á svindli olíufélaganna? Hann vill ekki einu sinni íhuga það, ekki einu sinni skoða hvernig skila eigi því aftur til almennings.

Ég spyr ráðherrann: Á ekki að gilda hið sama hér og t.d. gildir um ofgreiddar bætur? Hæstv. ráðherra gerir kröfu til þess að almenningur skili ofteknum bótum aftur í ríkissjóð. Nú gerir almenningur kröfu til þess að ráðherrann skili aftur þeim fjármunum hafa fengist inn í ríkissjóð af lögbrotum og aukið skatttekjur hans með óeðlilegum hætti.