131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:26]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem kunnugt frá fyrri tíð að menn reikna út kauphækkanir yfir stutt tímabil og fá þar út að þær gefi mönnum lítið í vasann. Ég man eftir því fyrir mörgum árum að menn töluðu um eina tiltekna kauphækkun í kjarasamningi á þann veg að hún gæfi mönnum aðeins fyrir tveimur mjólkurlítrum. Auðvitað geta menn brotið niður kaupmáttarbreytingar í svo smáar einingar að fyrir þær fæst lítið til viðbótar því sem menn áður höfðu.

Engu að síður hefur sú stefna sem menn hafa fylgt og tekin var upp árið 1990 í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna skilað árangri, hægt og bítandi hefur hún skilað almennu launafólki miklum árangri, og láglaunafólki kannski meiri árangri en öðrum þrátt fyrir að tölurnar hafi ekki verið háar á hverjum tíma. Ég ráðlegg mönnum að vera ekki mikið að tala um bleyjupakka því að með því eru þeir að gera minna úr launa- og kjarastefnunni en efni standa til.

Hitt tek ég undir hjá hv. þingmanni, að skattalækkanirnar sem eru teknar fram í stjórnarsáttmálanum verði útfærðar nánar í tengslum við gerð kjarasamninga eins og þar stendur. Það er auðvitað engin tilviljun að þetta er ákveðið svona. Menn vissu að vegna þenslunnar yrði að reyna að fá launþegana til að sætta sig við hóflegar launabreytingar og þá yrðu menn að bjóða þeim kaupmáttaraukningu til viðbótar með skattalækkunum. Það var út af fyrir sig eðlilegt því að ríkið hafði viðbótartekjur.

Þá skiptir máli hvernig sú skattalækkun er útfærð og þar verða menn auðvitað að dreifa skattalækkuninni í öðrum hlutföllum en tekjur gefa tilefni til.