131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:08]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé þá komið fram við umræðuna sem leitað var eftir og getur ekki orðið miklu skýrara af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki stuðning til þess að breyta núverandi tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga á grundvelli núverandi verkaskiptingar. Það er sannarlega áhyggjuefni ef hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafa ekki skilning á þeim mikla vanda sem blasir við sveitarstjórnarstiginu í landinu sem var á sl. ári rekið með 2,8 milljarða kr. tapi. Þó að þau muni ekki rukka ríkisvaldið fyrir kjarasamningum er alveg ljóst að þeir kjarasamningar sem nú hafa verið gerðir og eru í farvatninu við leikskólakennara munu ekki gera það að verkum að þessi vandi frá í fyrra hverfi, svo mikið er víst. Við þann vanda, þriggja milljarða halla, glíma sveitarfélögin og það er ekkert annað en að berja höfðinu við steininn og þrengja óhóflega að sveitarfélögunum að ætla ekki að mæta þeim, og þeim þörfum sem eru í nærþjónustunni.

Það er kannski til marks um að menn séu búnir að sitja of lengi þegar þeir hafa ekki skilning á hinni daglegu þjónustu úti í sveitarfélögunum heldur moka peningum í hirðina, í sendiherrabústaðina, hina starfandi sendiherra sína hér í Reykjavík, og geta ekki séð af fjármunum í sjálfa grunnþjónustuna, grunnskólana, leikskólana o.s.frv.