131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:35]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar fyrsti þjóðarsáttarsamningurinn var gerður, að mig minnir 1. febrúar 1990, var forsenda þess samnings að launaþróun allra annarra yrði eins. Það var ekki eingöngu ég, virðulegi forseti, sem stóð að þeirri samningsgerð. Þar var líka hv. þm. Ögmundur Jónasson sem stóð að því af fullum heilindum.

Allir samningar gerðir af aðilum vinnumarkaðarins síðan, sem eru grunnsamningarnir að þeirri launaþróun sem hér hefur verið, hafa verið með nákvæmlega sömu klásúlunni, nákvæmlega sömu forsendunni.

Opinber launastefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í upphafi þegar hún hóf starf sitt, eins og hún hefur komið fram við hverja einustu fjárlagagerð síðan, er að launastefna ríkisins verði hin sama og á almennum vinnumarkaði.

Svo gerist það, herra forseti, að hv. þm. Ögmundur Jónasson telur að ég hafi fundið þetta upp núna og að þetta sé mjög vanhugsað af mér. Nei, það hefur þá einhver vanhugsað það fyrir 15 árum. Þar var hann við hliðina á mér.

Þó að hann geti fundið það út að ég með þessari kröfu sé einhver brennuvargur — brennuvargur, virðulegur forseti, notaði hann. Ég veit ekki í hverju ég hef kveikt. Kannski hv. þingmanni. En það er ekkert verra þó það kvikni á einstaka þingmönnum öðru hverju. En annað kannast ég nú ekki við að hafa brennt. Það er allt í lagi að nota svona orð. En þau koma dálítið á óvart því það er svo sjaldan sem maður fær að frétta að maður sé brennuvargur.

Ég hef talað um þetta opinskátt. Ég hef staðið að þessum hlutum. Ég þykist þekkja grundvallaratriðin í þessu. Ég tel mikla þörf á því að tala um (Forseti hringir.) þessa hluti opnum huga.