131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:19]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur þó a.m.k. verið staðfest í þessari umræðu að hv. þingmaður vill hækka og breyta barnabótum. Ég hafði skilið hann þannig að hann vildi engar skattbreytingar vegna þess að hann sé svo hræddur við þenslu og önnur áhrif að það megi ekkert hreyfa sig í þeim efnum. En það er þó skref í áttina að hann vill eitthvað gera í þessum efnum og guð láti gott á vita.

Að því er varðar málefni öryrkja sem ekki koma þessu máli beinlínis við þá liggur alveg ljóst fyrir, hv. þingmaður, hvernig þetta var. Því var lýst yfir af ríkisstjórninni að hún ætlaði sér að verja 1 milljarði kr. til hækkunar örorkubóta og það var samþykkt á ríkisstjórnarfundi. Að vísu er þetta orðið allmiklu meira en þá var gert ráð fyrir og við höfum verið að auka bætur til margra í þjóðfélaginu og kaupmáttur þeirra bóta hefur verið að stórhækka sem betur fer. Það er vissulega þörf á því að gera meira í þeim efnum eins og svo mörgu öðru í þjóðfélagi okkar og við getum aldrei komið til móts við allar óskir í því sambandi, hvorki óskir einstakra hópa, einstakra ráðuneyta eða aðrar óskir. En við höfum fyllilega staðið við orð okkar í þessum efnum og þessi auglýsing breytir að sjálfsögðu engu um það.