131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:29]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ábyrgir stjórnmálamenn kannast við það sem þeir hafa gert. Ábyrgir stjórnmálamenn standast það próf og horfast í augu við veruleikann. Reyndin er að allir eru sammála um að ein skattaaðgerð hafi í för með sér mestan jöfnuð, sú að lækka matarskattinn. Það er sú tillaga sem Samfylkingin hefur beitt sér fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn styður það, Vinstri grænir hafa lýst stuðningi við það og Frjálslyndi flokkurinn líka. Það liggur fyrir að það er þverpólitískur bullandi stuðningur við að lækka matarskattinn um helming. Það liggur líka fyrir að það mun lækka verðbólguna og draga úr þeirri þenslu sem hv. þingmaður óttast.

Einungis einn flokkur hefur lagst þvert gegn því að lækka matarskattinn. Það er Framsóknarflokkurinn, það vita allir sem sitja í þessum sal.

Hvernig stendur á því að hinn djarfi, ungi víkingur, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, kemur í stólinn en leggur á flótta þegar hann er spurður: Hvers vegna leggst Framsóknarflokkurinn einn flokka gegn því að lækka matarskattinn? Hv. þingmaður leggur ekki í að viðurkenna þessa staðreynd. Hann kemur hingað og segir: Það er verið að skoða það. Enginn annar í stjórnarliðinu kannast við að verið sé að skoða það. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt það hreint út að það hafi ekki tekist að koma því í gegnum ríkisstjórnina vegna þvermóðsku Framsóknarflokksins.

Ef ég má í vinsemd og af einlægni gefa hv. þingmanni ráð þá er það þetta: Menn eiga að taka í hornin á bola. Þeir eiga að viðurkenna hlutina eins og þeir eru. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson á að koma hingað, vera heiðarlegur og segja að það sé rétt að Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) leggist gegn matarskattinum og hafi stoppað þann þverpólitíska stuðning sem við hann er. En spurningin er þessi: Hvers vegna?