131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fangelsi á Hólmsheiði.

323. mál
[14:49]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til að auka vægi meðferðarsjónarmiða í fangelsismálum og reyna þannig að rjúfa vítahring ungra afbrotamanna og draga úr ítrekunartíðninni. En fyrst og fremst vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort það sé ekki rétt að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ályktað um að loka beri Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg og hafi beitt sér fyrir ályktun um það í borgarstjórn svo fljótt sem verða má. Hvernig stendur á því að hæstv. dómsmálaráðherra, sem á aðild að þeim borgarstjórnarflokki og þeirri stefnumörkun, hefur nú setið á ráðherrastóli í eitt og hálft ár án þess að hafast nokkuð að í málinu, þó svo allir viti að Hegningarhúsið á Skólavörðustíg á ekkert erindi árið 2004 í íslenskt samfélag og hefur sætt áminningum erlendis frá? Hvenær hefur hæstv. dómsmálaráðherra og borgarfulltrúi, Björn Bjarnason, hugsað sér að framfylgja þeirri stefnu í stjórnarmeirihlutanum sem hann hefur í stjórnarandstöðunni hinum megin við Vonarstrætið? Með von um að hæstv. ráðherrann geti svarað því hér.