131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fangelsi á Hólmsheiði.

323. mál
[14:51]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum mjög þarft mál sem þarf virkilegrar skoðunar við. Ég fagna því sem hæstv. dómsmálaráðherra lýsti yfir áðan að skoða þyrfti þessi mál mjög vandlega og í samhengi við það hvernig nýta mætti ýmis meðferðarúrræði og taka upp vistanir og afplánanir í samræmi við brot, aldur og eðli brota, m.a. fíkniefnabrota þess fólks sem leiðst hefur út í þá ógæfu.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við reynum að átta okkur á því hvernig við getum látið refsingar eða vistun leiða til betri árangurs við endurhæfingu fólks hér á landi. Ég fagna því að það kom fram í máli ráðherrans og þakka hv. þm. fyrir að hafa tekið málið til umræðu.