131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fiskveiðistjórnarkerfi.

232. mál
[15:25]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Tilefni umræðunnar er þessi litla bók sem ég held á í hendi mér eftir breskan blaðamann. Bókin kom út í haust að því er ég best veit. Það hefur verið tönnlast á því að blaðamaðurinn hafi ítrekað fengið verðlaun, sé ritstjóri umhverfismála hjá Daily Telegraph í Bretlandi og þetta á að gefa honum einhvers konar gæðastimpil. En verðlaunin sem hann hefur fengið hafa komið frá umhverfisverndarsamtökum, Alþjóðanáttúruverndarsjóðnum, og mig langar að nota tækifærið til að vara ráðherrann við því.

Við getum deilt um fiskveiðistjórnarmál á Íslandi fram og til baka, við höfum gert það áður og við eigum eftir að gera það áfram. Ég vara hins vegar íslensk stjórnvöld við því að gefa umhverfissamtökunum færi á sér með því að skrifa upp á fordóma eins og fram koma í þessari bók gegn fiskveiðum til þess að reyna að slá einhverjum undirstöðum undir réttlætingu á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu og meintum kostum þess. Það tel ég vera mjög hættulega leið því þessi umhverfissamtök nota (Forseti hringir.) mjög ósvífinn áróður gegn fiskveiðum.