131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er stoltur. Ég vil spyrja hann hvort hann sé stoltur af því að hann stendur að því að rýra fæðingarorlofsgreiðslur á næsta ári þannig að þær verða ekki 80% af tekjum einstaklinga sem fara í fæðingarorlof heldur 74–75%. Það er verið að rýra þær um 6–7%. Það þarf að setja í Fæðingarorlofssjóðinn 400 millj. kr. ef greiðslurnar eiga ekki að rýrna í höndum framsóknarmanna eins og nú stefnir í. Þetta er veruleg kjaraskerðing fyrir unga fólkið.

Ég spyr hv. þingmann: Er það kjarabót fyrir unga fólkið og ætlar hann virkilega að standa að því að skerða vaxtabætur samtals á þessu og næsta ári um 900 millj. kr.?

Ég spyr líka hv. þingmann: Telur hann framsóknarmönnum til hróss að veruleg tekjuvöntun er hjá svæðisstjórn fatlaðra? Þó verið sé að veita 30 millj. kr. í ný úrræði þá er verið að taka 20 millj. kr. aftur í hagræðingarkröfu sem þýðir að þarna verða veruleg vandamál á næsta ári.

Þegar hann talar um að verið sé að leysa húsnæðismál fatlaðra þá spyr ég hv. þingmann: Er verið að leysa húsnæðismál þeirra 77 geðfötluðu einstaklinga sem eru á biðlistum hjá Öryrkjabandalaginu? (Gripið fram í.)

Ég spyr líka hv. þingmann: Er hann stoltur af því hvað framsóknarmenn hafa gert fyrir atvinnulausa á kjörtímabilinu? Í sex ár voru atvinnuleysisbætur skertar þannig að 15 þús. kr. vantaði upp á á mánuði að þær héldu raungildi sínu frá því sem þær voru þegar þessi stjórnarflokkar tóku við. Það var verkalýðshreyfingin sem fyrst rak þá til þess á síðasta ári að hækka bætur atvinnulausra.

Svo skyldi þingmaðurinn tala varlega um barnabæturnar vegna þess að þær eru 10 milljörðum lægri samtals en þær voru í upphafi kjörtímabilsins ef þær hefðu haldið raungildi sínu. Ég spyr þingmanninn: Hvar er barnakortið? Hvar eru fullar ótekjutengdar barnabætur fyrir öll börn að sextán ára aldri?