131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:14]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hagræðingarkrafa á stofnun þar sem útgjöldin fara að 70–80% í laun þýðir bara uppsögn starfsfólks.

Ég tel að fjárhagur Landspítalans sé slíkur að það sé veruleg áhætta að beita þar auknum niðurskurði. Ég tel að heldur eigi að styrkja það starf sem fyrir er.

Hæstv. ráðherra minntist á Lágmúlastöðina og hafði misskilið orð mín. Ég var síður en svo að vega að störfum þess ágæta fólks sem þar vinnur. Ég veit að það gerir það af dugnaði og samviskusemi. Ég var aðeins að vitna í umsögn Ríkisendurskoðunar um þessa stöð vegna þess að hún var svona eins og flaggskip einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu, heilsugæslunni. Samningurinn rann út árið 2000 og bent var á alvarlega vankanta í rekstri stöðvarinnar, m.a. að hún sé rekin á arðsemisgrundvelli. Það er stefnubreyting að reka heilbrigðisþjónustu sem arðsemisfyrirtæki. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er meiningin að reka fleiri heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir á arðsemisgrundvelli? (Forseti hringir.) Hve margir íbúar höfuðborgarsvæðisins eða Reykjavíkur eru án heimilislæknis?