131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki það sem ég var að spyrja um varðandi Fæðingarorlofssjóð. Ég veit að hann þarf á meira fjármagni að halda af því að fleiri feður sækja um greiðslur úr sjóðnum, sem betur fer. En greiðslurnar hafa rýrnað vegna þess að viðmiðunartímabilið sem tekjur eru miðaðar við var áður tólf mánuðir en getur núna verið tvö til þrjú ár. Menn eru því að tala um tekjur yfir langt tímabil sem 80% miðast við. Það gerir það að verkum að greiðslurnar sjálfar rýrna og fólk í fæðingarorlofi fær á næsta ári einungis 74–75% af viðmiðunarlaunum sínum í fæðingarorlofi. Þetta er ófært, ef sjóðurinn er farinn að rýrna. Við óskuðum eftir því við síðustu fjárlagagerð að þetta yrði verðbætt miðað við launavísitölu en þær tillögur voru felldar.

Ég spyr um afstöðu hv. þingmanns til þessa. Ég tel það ófært ef greiðslurnar rýrna smátt og smátt, sem þær munu gera. Þær munu halda áfram að rýrna ef ekki verður brugðist við.