131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:48]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Mér láðist reyndar að geta þess, herra forseti, að það er kannski rétt að taka fram að það er smáskekkja í þessum útreikningum hjá mér. 100 þús. kr. maðurinn mun líklega greiða örlítið meira en 8% í skatta, a.m.k. 100 þús. kr. maðurinn sem starfar og þiggur laun í Reykjavík vegna þess að R-listinn sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon styður og á aðild að var að enda við að hækka skattinn á 100 þús. kr. manninn án þess að hv. þingmaður, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hafi gert miklar athugasemdir við það. Hann hefði líklega óskað eftir utandagskrárumræðu hér á þingi og farið mikinn ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði farið með þeim hætti gegn láglaunamanninum en ólíkt hafast menn að. Við hér á þinginu, ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, förum allt aðra leið. Við lækkum skattana á þetta fólk, við aukum kaupmátt þess og það er ótrúlegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og flokkur hans séu á móti slíkri kaupmáttaraukningu, berjist eins og naut í flagi gegn þeim og berjist gegn launamönnum í landinu og venjulegu fólki sem er ærlegt og vinnur fyrir laununum sínum.

Ég hélt því ekkert fram að ríkir menn ættu ekki að greiða skatta eða hefðu ekki efni á því. (Gripið fram í: Jæja.) Þeir hafa alveg efni á því og þeir greiða skatta. Það sem ég var að segja og draga fram í umræðuna var einfaldlega þetta: Þeir greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta og þeir greiða líka miklu hærri krónutölu í skatta. Ég var ekkert að vorkenna þeim en þetta er aldrei tekið fram í umræðunni af hálfu þeirra sem eru að fjalla um skattamál, sérstaklega um skattalækkanir.