131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:26]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé maður að meiri að viðurkenna að ríkisstjórnin hefur misst tökin á útgjöldunum. Þá er kannski ekki ástæða til þess þegar maður er sjálfur í þeim sporum að hækka ríkisútgjöldin umfram allar þær hagstærðir sem vert er að miða sig við, að hundskamma aðra og gera lítið úr málflutningi þeirra þó þeir leggi eitthvað til.

Ég segi því bara þetta: Hv. þingmaður er maður að meiri að viðurkenna að ríkisútgjöldin hafa farið úr böndunum, en ég bið hann á sama tíma um að gera ekki lítið úr málflutningi annarra sem leggja til aðra forgangsröðun í ríkisútgjöldum.